Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.

Umfjöllun:

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti lærisveina Guðjóns Þórðarsonar í Ólafsvík á Snæfellsnesi í 19. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Bæði lið vildu sækja til sigurs og koma sér frá botnliðunum í deildinni og komst nær miðri deild en töluverðum stigafjölda munar á liðunum og Haukum sem hefur setið fast í 7. sæti deildarinnar síðustu umferðir. Guðjón þjálfari Víkings er reynslumesti þjálfari landsins er að reyna byggja upp nýtt lið þar, en í hópnum eru 8 erlendir leikmenn og voru sex af þeim í byrjunarliði í þessum leik. Hjá KF voru nokkrir leikmenn og liðstjóri í leikbanni í þessum leik og var því fámennt á varamannabekknum. KF vann fyrri leik liðanna í byrjun sumars 3-2 og mátti alveg eins búast við markaleik aftur á heimavelli Víkings.

Það voru gestirnir frá Fjallabyggð sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 11. mínútu þegar Cameron Botes skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu, en hann leikur nú sitt annað tímabil með liðinu og var drjúgar í markaskorun á sínu fyrsta tímabili með 5 mörk. Staðan 0-1 fyrir KF.

Heimamenn áttu svo stórkostlegan leikkafla um miðjan fyrri hálfleik en þeir fengu vítaspyrnu á 31. mínútu og var það þeirra fyrirliði sem úr henni skoraði og jafnaði leikinn í 1-1. Aðeins tæpum tveim mínútum síðar komust heimamenn yfir. Mínútu síðar var staðan skyndilega orðin 3-1 fyrir heimamenn og staðan orðin dökk fyrir KF þegar stutt var í leikhlé. Þrjú mörk á þremur mínútum og mikill skellur að fá þessu mörk á svo skömmum tíma.

Markahæsti leikmaður KF Julio Cesar Fernandes gaf þeim líflínu þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 45. mínútu og var því staðan 3-2 í hálfleik.

Í síðari hálfleik sótti KF og í einni sókninni skoraði varnarmaður Víkings sjálfsmark og jafnaði leikinn í 3-3 á 52. mínútu leiksins. Fleiri mörk voru ekki skoruð en KF náði sér þó í fjögur gul spjöld og heimamenn þrjú gul að auki. Lokatölur 3-3 í þessum baráttuleik.

Það voru 120 áhorfendur á leiknum samkvæmt upplýsingum frá leikskýrslu.

KF er enn í 8. sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. KF leikur næst við topplið Njarðvík, Reyni Sandgerði og Hött/Huginn í lokaumferðinni.