KF heimsótti Víði í Garði

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Víðir í Garði í dag á Reykjanesinu. Leikið var á Nesfisk-vellinum, heimavelli Víðis.

Víðir hafði tapað síðustu 5 leikjum og aðeins unnið tvo leiki af síðustu 10, einn þeirra var einmitt gegn KF á Ólafsfjarðarvelli fyrr í sumar, og hinn gegn Dalvík/Reyni. Í byrjunarliði Víðis voru sex erlendir leikmenn í bland við unga uppalda leikmenn. KF mætti með sitt sterkasta lið, og eru núna með markahæsta mann deildarinnar, Theodore Develan Wilson sem hefur gert 6 mörk í deildinni fram til þessa.

Heimamenn gerðu fyrsta mark leiksins rétt undir lok fyrri hálfleiks, markið kom eftir hornspyrnu og gerði Stefan Spasic markið. KF hefði átt að gera betur og hreinsa frá en margir leikmenn voru á markteignum og erfitt fyrir markmanninn að athafna sig. Staðan var því 1-0 í hálfleik fyrir Víði.

Á 56. mínútu fengu Víðismenn vítaspyrnu þegar brotið var á Hreggviði Hermannsyni sem var að stinga sér á milli varnarmanna. Á punktinn steig Guyon Philips sem skoraði af öryggi og kom Víði í 2-0 en Halldór markmaður skutlaði sér í rangt horn. Í aðdragenda marksins missti KF boltan klaufalega á vinstri kanti og fengu Víðismenn skyndisókn sem endaði með broti innan teigs og vítaspyrnu.

Mínútu eftir markið misstu Víðismenn leikmann af velli þegar Guðmundur Marinó Jónsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Víðismenn voru þó ívið sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks þrátt fyrir að vera einum færri til leiksloka.

KF átti alls ekki góðan dag en það verður ekkert tekið af Víðismönnum sem nýttu sín tækifæri í dag og sóttu þrjú dýrmæt stig.

Víðir vann þar með báða leikina gegn KF á Íslandsmótinu, en KF hefði með sigri geta komið sér í toppbaráttuna.