Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Njarðvík í 9. umferð Íslandsmótsins. Njarðvík var eina taplausa liðið í deildinni og var í toppsætinu fyrir leikinn og var á miklu skriði. Liðin mættust í deildinni í fyrra og vann Njarðvík báða leikina 2-1 og 0-2 á Ólafsfjarðarvelli. Njarðvík hafði aðeins fengið á sig 7 mörk í fyrstu 8 umferðunum en skorað 29 mörk, þar af hafði Oumar Diouck og Úlfur Björnsson skorað 18 mörk samanlagt. KF hafði hins vegar aðeins unnið tvo leiki, gert fjögur jafntefli og tapað tveimur í fyrstu 8 leikjunum í deildinni.

Einn besti leikmaður deildarinnar er í Njarðvík en hann þekkja stuðningsmenn KF vel, Oumar Diouck. Hann er markahæsti maður deildarinnar með 10 mörk fyrir þennan leik, og segja spekingar hann vera of góðan til að spila í þessari deild. Miðað við gengið á Njarðvík í ár, þá er líklegt að þeir komust upp í næstu deild.

Þjálfari Njarðvíkur er einn af betri þjálfurum landsins, Bjarni Jóhannsson, og er að gera frábæra hluti með liðið. Fyrifram var búist við erfiðum leik fyrir gestina úr Fjallabyggð.

Það voru heimamenn sem voru meira með boltann í þessum leik og sköpuðu sér mun fleiri færi og áttu mörg skot að marki KF. Það tók Njarðvík um 25 mínútur að komast yfir í leiknum, en það var Kenneth Hogg sem gerði fyrsta markið. Rúmum 10 mínútum síðar skoraði Oumar Diouck nokkur, og kom heimamönnum í vænlega stöðu, 2-0. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks þá skoraði Hreggviður Hermannsson og kom þeim í 3-0 rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks. Frábær fyrri hálfleikur hjá Njarðvík, en KF áttu erfiðan hálfleik.

Aðeins nokkrar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar næsta mark lak inn, en Bergþór Smárason var maðurinn á bakvið það, og kom Njarðvík í 4-0.

Aftur liðu rúmar 10 mínútur þegar fimmta markið kom, en það var Ari Andrésson sem það gerði, og hrein niðurlæging í gangi.

Njarðvíkingar voru ekki hættir og náðu aftur góðri sókn skömmu eftir fimmta markið og skoruðu sjötta markið sitt, staðan 6-0 og nú var það Úlfur Björnsson sem það gerði.

Ekkert mark var skorað síðasta hálftímann, en eins og áður sagði áttu Njarðvíkingar mun fleiri tækifæri og láku mörkin hreinlega inn.

Lokatölur 6-0 á Rafholtsvelli í Reykjanesbæ.

Frábær frammistaða hjá toppliði deildarinnar, en KF þurfa gíra sig upp í næsta leik.

Þess má geta að Njarðvík keppti við KR 26. júní í Mjólkurbikarnum og töpuðu aðeins 0-1 fyrir Vesturbæjarstórveldinu.

 

Mynd: Magnús Rúnar Magnússon /Héðinsfjörður.is
Mynd: Magnús Rúnar Magnússon