KF heimsótti Reyni í Sandgerði – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks. Pantaðu lyfin og snyrtivörurnar beint af netinu!

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Reyni í Sandgerði í dag í 2. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla í knattspyrnu. Bæði lið sigruðu í fyrstu umferðinni, en Reynir vann Hauka nokkuð óvænt 0-2 og KF sigraði Kára 2-3. Reynir kom upp um deild á síðasta tímabili en liðið var í 2. sæti í 3. deildinni og átti gott mót og skoraði mikið af mörkum. Liðin mættust síðast í 3. deildinni árið 2019 en þá vann KF báða leikina með yfirburðum, 4-1 í Ólafsfirði og 1-5 á útivelli.

Leikið var á Blue-Vellinum í Sandgerði og aldrei eins og vant var ekki hávaða rok á svæðinu. Leikaðstæður voru því með besta móti í þessum leik.

KF stillti upp sterku liði og ætluðu sér öll þrjú stigin sem í boði voru. Reynismenn voru lítið að flýta sér í fyrri hálfleik og tóku tíma í allar sínar leikaðgerðir, og lögðu mikið uppúr föstum leikatriðum. KF fékk nokkur hálffæri í fyrri hálfleik og hefðu með smá heppni geta gert nokkur mörk. Framlínan hjá KF var sérlega hættuleg og voru varnarmenn Reynis í tómum vandræðum með að loka á þá. Staðan var samt 0-0 í hálfleik og Halldór Ingvar markmaður KF var öruggur í markinu þegar Reynismenn gerðu sig líklega.

Þjálfari KF gerði eina breytingu í hálfleik en Þorsteinn Már Þorvaldsson kom inná fyrir Hrannar Snæ. KF strákarnir komu sterkir inn í síðari hálfleik og skoruðu mark eftir nokkrar mínútur en það var Oumar Diouck sem gerði fyrsta markið og kom KF í 0-1. Þjálfari Reynis gerði tvær skiptingar eftir markið en það breytti lítið gangi leiksins.

Þegar tæpar sautján mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði KF sitt annað mark og komu sér í þægilega stöðu í leiknum, en markið gerði Sachem Wilson. Þegar um 8 mínútur voru eftir af  venjulegum leiktíma kom Atli Snær Stefánsson inná fyrir Andi Morina.

Reynismenn reyndu að pressa síðustu mínútur leiksins og sendu háa bolta fram á sína stóru framherja og sendu marga leikmenn fram þegar horn og aukaspyrnur voru. Þeir fengu hættulegt færi þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiktímanum en boltinn fór framhjá þvögunni og í horn.

Leiktíminn rann út og KF vann sanngjarnan sigur á Reyni og fara heim með þrjú stig, og eru þá með tvo sigra í fyrstu tveimur umferðum Íslandsmótsins.

KF leikur næst heimaleik, laugardaginn 22. maí gegn Leikni Fáskrúðsfirði. Hægt er að fá ársmiða á aðeins 15.000 kr, sem gildir á alla heimaleiki KF í sumar í 2. deildinni.

 

Hákon Leó í einum grænum og einum appelsínugulum takkaskóm.