Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Njarðvík í dag í leik 5. umferðar Íslandsmótsins í 2. deild karla. Heimamenn í Njarðvík höfðu tapað síðustu tveimur deildarleikjum en KF hafði unnið sína tvo, en liðin voru bæði með 6 stig fyrir þennan leik. Liðin höfðu mæst 12 sinnum í öllum mótum fyrir þennan leik og hafði Njarðvík aðeins unnið 1 leik, sex voru jafntefli og KF hafði unnið 5. Liðin voru saman í deildarkeppni síðast árið 2016 og var þá jafntefli á heimavelli Njarðvíkur en KF hafði unnið sinn heimaleik 1-0.

Það voru heimamenn sem byrjuðu betur og skoruðu strax á 12. mínútu, en langur bolti barst til Berþórs Smárasonar sem lyfti boltanum laglega yfir Halldór markmann KF og kom heimamönnum í 1-0. Hvorugu liðinu hafði tekist að skapa færi fram að þessu marki. KF gekk illa að halda boltanum eftir markið og Njarðvík setti meiri pressu, án þess þó að skapa opin færi. KF átti eina ágæta skyndisókn í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta það og var staðan því 1-0 í hálfleik.

KF komst svo í dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks en tókst ekki að skora. Skömmu síðar bjargaði KF á línu en náðu ekki að hreinsa vel og skoraði Njarðvík að lokum og komust í 2-0 með marki frá Atla Pálssyni.

Um miðjan síðari hálfleik gerði þjálfari KF tvöfalda skiptingu þegar Sævar Gylfason og Halldór Mar komu inná fyrir Jón Óskar og Oumar. Njarðvík gerði sjálfsmark skömmu eftir þessa skiptingu og var staðan því orðin 2-1 á 67. mínútu.

Óliver komi inná fyrir Emanuel á 84. mínútu hjá KF, og reyndu þeir að setja pressu á Njarðvík síðustu mínúturnar en jöfnunarmarkið kom ekki. Niðurstaðan 2-1 sigur hjá Njarðvík og datt KF niður í 7. sæti eftir þennan leik.

KF leikur næst við Hauka, föstudaginn 17. júlí á Ólafsfjarðarvelli.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.