Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.
KF heimsótti Magna á Grenvík í 17. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Bæði lið hafa klárlega átt betri tímabil, en ekkert hefur gengið upp hjá Magna í sumar og eru þeir neðstir í deildinni. KF hefur einnig verið í vandræðum í sumar og voru í þriðja neðsta sæti deildarinnar fyrir þennan leik, 5 stigum frá fall sæti. Magni hafði unnið tvo heimaleiki en tapað fimm og gert eitt jafntefli. KF hafði ekki unnið útleik fyrir þennan leik, en gert fjögur jafntefli og tapað fjórum. Þetta var fjórði leikurinn á árinu sem liðin mætast en í vor mættust þau í deildarbikar, mjólkurbikar og í fyrri umferð Íslandsmótsins. Magni hafði unnið einn leik, en KF hina tvo og lofaði það góðu fyrir þennan leik.
KF tapaði naumlega fyrir Völsung í síðustu umferð og voru strákarnir staðráðnir í að sækja úrslit hér í þessum leik. Markahæsti maður KF var í leikbanni en Julio Cesar Fernandes fékk rautt spjald í síðasta leik og var á meðal áhorfenda í þessum leik. Þá var Javon Sample kominn í markið og Symon Ericksen í vinstri bakvörð.
Leikurinn var varla byrjaður þegar sóknarmaður KF fékk höfuðhögg eftir samstuð við markmann Magna, en hann stóð aftur upp eftir aðhlynningu. Bæði lið fengu færi á upphafsmínútum leiksins sem nýttust ekki.
Það var KF sem skoraði fyrsta mark leiksins, en liðið fékk hornspyrnu á 30. mínútu og var boltinn sendur á fjær stöngina og barst þaðan út í teig. Boltinn barst aftur upp hægri kantinn og kom þaðan fyrirgjöf á markmannsteiginn og Sævar Gylfason var réttur maður á réttum stað og potaði boltanum inn. Mikilvægt mark og KF komið í 0-1.
Það liðu ekki nema rúmar fimm mínútur þegar heimamenn áttu skyndisókn eftir að hafa unnið boltann á eigin vallarhelmingi. Þeir sprettu upp vinstri kanntinn og kom góð fyrirgjöf á Guðna Sigurþórsson sem var óvaldur í teignum og skoraði hann auðveldlega. Þarna var vörn KF sofandi á verðinum og hefðu átt að gera betur í dekkingu.
Staðan var því 1-1 í hálfleik.
Leikurinn var enn í járnum í síðari hálfleik og bæði lið reyndu að sækja. KF byggði upp sókn frá grunni í 55. mínútu og reyndu langa sendingu fram sem vörn Magna skallaði frá, en KF náði frákastinu og tókst að senda út á hægri kantinn, þaðan kom góð fyrirgjöf á Sævar Þór Gylfason sem skoraði gott mark og kom KF aftur yfir 1-2. Vel útfærð sókn og vel klárað færi.
Magni nýtti allar sýnar skiptingar í síðari hálfleik og gerði þjálfari þeirra þrjár skiptingar skömmu eftir seinna mark KF. Þjálfari KF gerði sína fyrstu skiptingu á 81. mínútu þegar Grétar Áki kom inn á miðjuna fyrir Marinó Snæ. KF gerði eina skiptingu í blálokin eða á 95. mínútu þegar Jón Frímann kom inná fyrir Þorsteinn Má.
Dómarinn flautaði og KF vann dýrmætan útisigur gegn Magna, 1-2. KF er núna í 8. sæti deildarinnar með 18 stig.