KF heimsótti KFG á gervigrasið í Garðabænum 1. júlí. Liðin höfðum ekki keppt í 5 ár, en síðustu leikir liðanna voru sumarið 2018 þegar liðinu voru í 3. deildinni. KFG kom upp sem þriðja liðið úr 3. deildinni eftir að eitt lið dró sig úr keppni.   Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.

KF gat með sigri lyft sér tímabundið úr fallsæti en KFG gat með sigri komist í 3. sæti deildarinnar.

Bekkurinn hjá KF var sterkur að vanda, en þar sat þjálfari liðsins sem varamarkvörður, Halldór Guðmundsson og einnig markaskorari liðsins Sævar Þór Fylkisson. Helst vill maður sjá hann í byrjunarliðinu en hann er markahæsti leikmaður liðsins á Íslandsmótinu. Hákon Leó Hilmarsson var skráður sem aðstoðarþjálfari liðsins í þessum leik. Hann er jafnframt gjaldkeri félagsins.

Umfjöllun:

Fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en á 41. mínútu þegar heimamenn brutu ísinn og skoruðu, en markið kom frá Degi Orra Garðarssyni, ungum leikmanni liðsins og hans fyrsta mark á Íslandsmótinu.

KFG leiddi 1-0 í hálfleik.

Þjálfari KF gerði eina breytingu í hálfleik þegar Breki Blöndal kom inná fyrir Jón Frímann Magnússon.

KFG gerði ekki breytingu fyrr en um miðjan síðari hálfleik og kom þá tvöföld skipting.

Enn var aðeins 1-0 fyrir heimamenn á 66. mínútu en þá kom Sævar Þór Fylkisson inná hjá KF fyrir Marinó Snæ Birgisson. Nokkrar mínútur liðu og aftur gerði KF skiptingu þegar Rúnar Freyr Egilsson kom inná fyrir Þorstein Má Þorvaldsson sem var kominn með gult spjald.

KF gerðu hvað þeir gátu til að jafna leikinn og kom hinn leikreyndi Akil De Freitas inná á 82. mínútu fyrir Atla Snæ Stefánsson, og var nú allt lagt í sóknina.

Á 89. mínútu fær Fransico Eduardo Cruz beint rautt spjald hjá KF. Aðeins mínútu síðar skorar KFG aftur og komast í 2-0 þegar aðeins uppbótartími er eftir og KF leikmanni færri. Heimamenn náðu tvöfaldri skiptingu en dómarinn bætti vel við leikinn og var niðurstaðan 2-0 sigur fyrir KFG gegn KF.

Ekki úrslitin sem KF var að vonast eftir, en enn er nóg eftir af deildinni og jöfn staðan í neðri hlutanum.

KF hefur nú leikið 9 leiki og á inni einn frestaðan leik gegn Völsungum.

Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.