KF heimsótti KFA á Austurlandi – Umfjöllun í boði Siglufjarðar Apóteks

Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili.

KF fór á Reyðarfjörð til að mæta Knattspyrnufélagi Austfjarðar, KFA, í fyrstu umferð Íslandsmótsins í 3. deild karla. KFA er sameinað lið Austfjarðaliðanna, en erfiðlega hefur gengið hjá þeim að manna liðin undanfarin ár. KFA er mikið byggt í kringum erlenda leikmenn en 7 voru í  byrjunarliðinu í þessum leik. Hjá KF vantaði markmanninn Javon Sample og bakvörðinn Hákon Léo, en brasílíumaðurinn Julio Cesar Fernandes var nýkominn með leikheimild hjá KF og kom hann beint í byrjunarliðið í sínum fyrsta leik fyrir liðið. Leikið var í Fjarðabyggðarhöllinni á gervigrasinu.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik þrátt fyrir ágætis tilþrif hjá liðunum. Heimamenn í KFA byrjuðu þó af krafti og skoruðu tvö mörk með stuttu millibili í upphafi fyrri hálfleiks. Fyrra markið kom á 56. mínútu þegar markmaður KF kastaði boltanum ónákvæmlega út og komst leikmaður KFA í boltann og sendi strax inn á teiginn þar sem Mycolas skoraði. Gjafamark að hálfu KF.

Síðara markið kom á 62. mínútu, þegar KFA fékk hornspyrnu, og kom fastur bolti á nærstöngina en þar losnaði um leikmann KFA sem var illa dekkaður og kom hann boltanum í markið með skalla, var því á bratta að sækja fyrir KF þegar tæpur hálftími var eftir að leiknum.

KF fékk vítaspyrnu á  72. mínútu þegar brotið var á leikmanni liðsins innan vítateigsins.  Brasílíumaður Julio Cesar Fernandes steig á punktinn og skoraði örugglega og sendi markmann KFA í rangt horn. Frábær og örugg vítaspyrna hjá þessum nýja sóknarmanni KF.

KF sótti stíft að marki KFA síðustu mínútur leiksins og reyndu heimamenn aðeins að hreinsa boltanum eins langt fram og þeir gátu og sýndu litla tilburði að leika boltanum og ætluðu að halda þessari eins marks forystu.

Á 95. mínútu uppbótartíma barst boltinn inn fyrir vörn KFA og Þorvaldur Daði Jónsson komst í boltann á undan markmanninum og inn fór boltinn. Ekki fallegasta markið en dýrt mark. KFA náði ekki annarri sókn og dómarinn flautaði leikinn af.

Niðurstaðan 2-2 jafntefli í þessum baráttuleik.