Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Íþróttafélagi Reykjavík í 14. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Leikurinn fór fram á ÍR-vellinum. Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar.

Upphitun:

KF gat með sigri komist úr fallsæti í fyrsta sinn og ÍR gat með sigri komist í 6. sæti deildarinnar, en þaðan er stutt í toppbaráttuna. Liðin hafa verið saman í deild síðan 2020 og þekkja ágætlega til hvors annars. ÍR vann fyrri leikinn í vor gegn KF nokkuð örugglega 1-4 en jafntefli var í báðum leikjum liðanna á síðasta tímabili. Sögulega séð þá hefur ÍR haft yfirhöndina en liðið hefur sigrað 7 leiki gegn KF frá árinu 2014,  tveir farið jafntefli og KF sigrað 4.

ÍR er með markahæsta mann deildarinnar, en það er Bragi Karl Bjarkason sem hefur skorað 11 mörk á Íslandsmótinu fyrir þennan leik. ÍR liðið er sterkt varnarlega og aðeins fengið á sig 17 mörk í 13 leikjum og skorað 28 mörk, næst flest allra í deildinni. Það hefur hins vegar aðeins vantað upp á úrslitin undanfarið hjá liðinu, en þó var liðið með tvo sigra í 5 leikjum fyrir þennan leik eins og KF.

Hjá KF vantaði nokkra menn vegna meiðsla, en Akil var hveri á leikskýrslu og Eduardo Cruz hefur verið sem aðstoðarþjálfari liðsins í undanförnum umferðum, en hann kom upphaflega til liðsins til að styrkja leikmannahópinn. Þá var fyrirliðinn Grétar Áki fjarverandi, en Þorsteinn Már Þorvaldsson var með bandið í dag. Vitor Vieira Thomas var kominn á bekkinn og eins var Halldór þjálfari klár sem varamarkmaður ef á þyrfti að halda. Sito var í fremstu línu og var að leika sinn þriðja leik fyrir KF, en hann gerði tvö mörk í fyrsta leik sínum fyrir félagið, en náði ekki að skora í síðustu umferð.

Umfjöllun:

Heimamenn stilltu upp sínu sterkasta liðin en KF þurfti að gera nokkrar breytingar hjá sér frá síðsta leik. Hvorugu liðinu tókst að nýta færin í fyrri hálfleik og var því 0-0 þegar dómarinn flautaði til hlés. ÍR gerði tvær skiptingar í hálfleik og kom nýr leikmaður inná ,Ernest Slupski, sem kom frá Þrótti Reykjavík að láni, en það er hraður leikmaður sem spilar á kanti eða frammi.

Heimamenn voru töluvert ákveðnari í síðari hálfleik og eftir rúmar tíu mínútur voru þeir búnir að skora tvívegis með stuttu millibili og komnir í góða stöðu 2-0. Það var Bjarki Karl, þeirra markahæsti maður sem gerði fyrra markið á 56. mínútu og Sæmundur Sven með annað markið tveimur mínútum síðar. Í kjölfarið gerðu bæti lið tvær skiptingar. Atli Snær og Vitor komu inná hjá KF fyrir Marinó Birgisson og Dagbjart Búa.

KF minnkaði muninn þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum og var ákveðin von um jöfnunarmark komið á þeim tímapunkti. Það var Vitor sem skoraði, nýkominn inná sem varamaður. Staðan 2-1 og nóg eftir. KF gerði fljótlega tvær aðrar skiptingar þegar Breki Blöndal kom inná fyrir Rúnar Frey og Helgi Már fyrir Sito.

ÍR gerði út um leikinn í uppbótartíma og unnu leikinn 3-1.

Tíundi tapleikur KF í 14 leikjum staðreynd. Ekkert jafntefli ennþá komið í deildinni hjá þeim en 4 sigrar í húsi.

Næsti leikur KF verður gegn Þrótti frá Vogum á Ólafsfjarðarvelli, miðvikudaginn 2. ágúst.

 

Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.