KF heimsótti Fjarðabyggð í sex marka leik

Eftir nokkra pásu fór Íslandsmótið í knattspyrnu aftur af stað í gær. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Fjarðabyggð í Eskifirði og keppt var á Eskjuvelli. Búist var við erfiðum leik en Fjarðabyggð hafði ekki tapað leik á heimavelli og aðeins einum leik á útivelli í deildinni í sumar. Liðið hafði þá aðeins fengið á sig 6 mörk fyrir þennan leik. Fjarðabyggð byggir lið sitt að mestu leiti upp á erlendum leikmönnum og voru 8 slíkir í byrjunarliðinu og einn á bekknum. Þjálfari Fjarðabyggðar er serbinn Dragan Stojanovic en hann hefur þjálfað liðið frá árinu 2017, en hann var þjálfari KF á árinu 2014. Dragan var áður leikmaður Fjarðabyggðar á árunum 2001-2003.

KF hafði leikið vel fyrir covid-pásuna og voru staðráðnir í að sækja stig í þessum leik. Grétar Áki var kominn í byrjunarliðið og bar fyrirliðabandi í leiknum. Engir áhorfendur voru leyfðir á þessum leik.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og voru sterkari fyrstu 30 mínútur leiksins. Fjarðabyggð komst yfir á 19. mínútu og jók forystuna í 2-0 á 24. mínútu og voru komnir í vænlega stöðu. Gestirnir úr Fjallabyggð komu hinsvegar sterkir til baka og náðu að jafna fyrir hálfleik. Sachem (Theodore Develan Wilson) minnkaði muninn á 37. mínútu í 2-1 eftir góða sókn og Ljubomir Delic jafnaði leikinn skömmu síðar með góðum skalla og var staðan því 2-2 í hálfleik.

Fjarðabyggð gerði eina skiptingu í hálfleik en liðið hjá KF var óbreytt áfram. Þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik skorar Ljubomir Delic aftur eftir góða sókn og kemur KF í 2-3, hans þriðja mark í 9 leikjum í sumar. Fjarðabyggð gerði aðra skiptingu og setti níunda erlenda leikmanninn inná og var allt kapp lagt á að jafna leikinn.

KF gerði sína fyrstu skiptingu á 62. mínútu þegar Jón Óskar kom inná fyrir Halldór Mar, og á 87. mínútu kom Þorsteinn Már inná fyrir Sævar Þór.

Í uppbótartíma skoraði KF svo lokamarkið og gulltryggði 2-4 sigur á þessum erfiða útivelli, en markið gerði Theodore Develan Wilson(Sachem), eftir gott skot utan teigs,  hans sjötta mark í 8 leikjum í sumar.

KF lyfti sér upp í 6. sæti eftir þennan sigur og eru nú með 15 stig eftir 9 leiki og hefur liðið núna unnið þrjá leiki í röð í deildinni. Næsti leikur er gegn Víði í Garði.

Mynd frá Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar - KFF - Fjarðabyggð.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.