Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Dalvík/Reyni á Dalvíkurvelli í dag í Lengjubikarnum. Leikurinn var lokaleikur liðanna í riðlinum og gat sigur lyft öðru liðinu upp í 4. sæti. Dalvík og KF þekkja leikstíl hvors annars vel og er hart barist þegar þessi nágranna lið mætast, hvort sem það er leikur á Íslandsmóti eða æfingaleikur. Leikurinn átti að fara fram fyrir nokkru síðan en vegna mikils kulda þá var honum frestað þar til í dag.

KF stillti upp sterku liði og var Adil Kouskous nýr erlendur leikmaður kominn í leikmannahópinn og byrjaði á bekknum. Þorsteinn Már Þorvaldsson var fyrirliði KF í þessum leik. Dalvík var einnig með sterkt lið en aðeins fjóra varamenn.

Dalvík byrjaði leikinn betur og skoruðu strax í upphafi og er markið skráð á 2. mínútu, og var það Toni Tipuric sem var að leika sinn fyrsta leik með Dalvík. Áki Sölvason bætti við öðru marki á 45. mínútu og var staðan því 2-0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Þjálfari KF gerði eina skiptingu í hálfleik og kom Adil Kouskous inná í sínum fyrsta leik fyrir KF og á Íslandi. Hann kom inná fyrir Marinó Snæ. Aðeins fimm mínútum síðar fékk Adil skiptingu útaf fyrir Jón Frímann, en líklega var um meiðsli að ræða.

Sigfús Gunnarsson skoraði þriðja mark Dalvíkur á 67. mínútu og kom þeim í góða stöðu, 3-0.

Bæði lið gerðu svo nokkrar skiptingar og gátu heimamenn leyft sér að gefa varamarkmanni sínum síðustu mínútur leiksins.

KF skoraði svo eitt sárabótarmark á 89. mínútu þegar Þorsteinn Már Þorvaldsson skoraði og minnkaði muninn í 3-1 sem urðu lokatölur leiksins.

KF mætir næst Þór í Mjólkurbikarnum á Skírdag, 6. apríl kl.15:00 í Boganum á Akureyri.