Siglufjarðar Apótek er áfram aðalstyrktaraðili umfjallana um meistaraflokks KF í sumar eins og undanfarin ár. Þökkum þeim kærlega fyrir stuðninginn. Á heimasíðu Siglufjarðar Apóteks getur þú pantað lyf og keypt vítamín og bætiefni, hjúkrunarvörur og snyrtivörur.

Upphitun:

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Ægi á Þorlákshöfn í 2. umferð Íslandsmótsins. Leikið var á GeoSalmo vellinum í Þorlákshöfn.

Óvæntar fréttir bárust skömmu fyrir leik, en Halldór þjálfari KF var kominn í byrjunarliðið og stóð á milli stanganna í fjarveru Javon Sample. Dóri lét skóna á hilluna árið 2021, en hefur þó stöku sinnum tekið fram hanskana ef mikil meiðsli hafa verið hjá markmönnum félagsins.

Eduardo Cruz var kominn á bekkinn hjá KF en þar var einnig Sævar Þór Fylkisson og Ljubomir Delic, en þeir eru öllu jafnan í byrjunarliðinu, en töluverð samkeppni er um stöðurnar núna.

Þjálfari Ægis er fyrrum leikmaður KF, Nenad Zivanovic. Ægir unnu Reyni Sandgerði í fyrstu umferð, sannfærandi 3-0 á meðan KF tapaði gegn KFG. Þetta var fyrsti heimaleikur Ægis á Íslandsmótinu í ár. Liðin mættust síðast fyrir 2 árum á Íslandsmótinu og fór þá jafntefli á Ólafsfjarðarvelli en Ægir vann sinn heimaleik 5-3. Ægir spilaði í Lengjudeildinni á síðasta ári en féllu úr deildinni.

Umfjöllun:

KF stillti upp sterku liði og sárvantaði sigur til að koma sér á blað í deildinni. Heimamenn ætluðu sér einnig að fylgja eftir góðri byrjun á Íslandsmótinu. Fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en seint í fyrri hálfleik þegar Ægir gerði gott mark úr víti og leiddu þeir 1-0 í hálfleik. Skömmu fyrir hálfleikinn þurfti KF að gera skiptingu þegar Akil De Freitast þurfti að fá skiptingu en inná kom Ljubomir Delic.

KF komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og náðu að jafna leikinn eftir rúmar 10 mínútur, en það var Marinó Snær Birgisson sem gerði markið.

Heimamenn settu meiri sóknarþunga og uppskáru mark þegar um 15 mínútur voru eftir á vallarklukkunni auk uppbótartíma. Staðan orðin 2-1 og enn var tími fyrir fleiri mörk.

KF gerðu hvað þeir gátu til að reyna ná jöfnunarmarkinu en það voru heimamenn sem áttu lokaorðið seint í uppbótartíma og kláruðu leikinn 3-1.

Ægismenn eru því í efrihluta deildarinnar með tvo sigra en KF er enn án stiga eftir erfiða byrjun á mótinu.

KF leikur næst við Kormák/Hvöt í 3. umferðinni, föstudaginn 17. maí á Ólafsfjarðarvelli, ef hann verður tilbúinn.

 

Siglufjarðar apótek er aðalstyrktaraðili umfjallana um alla leiki KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek


a