KF heimsækir Sindra á Hornafirði – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

KF heimsækir lið Sindra á Hornafirði á morgun í lokaleik 13. umferðar í 3. deild karla í knattspyrnu. Lið Sindra er í næstneðsta sæti með 10 stig, sex stigum frá KF sem er í 8. sæti. Sindri hefur aðeins náð í þrjú stig úr síðustu 5 leikjum, en liðið vann þó Augnablik 3-0 í síðustu umferð.

KF hefur náði í 10 stig í síðustu 5 leikjum og hefur verið á góðu skriði. Úrslitin í þessari umferð hafa verið hagstæð liðinu og með sigri getur liðið komist í 5.-6 sæti deildarinnar. KF hefur þó gengið illa á móti Sindra síðustu árin, og í síðustu 5 leikjum liðanna þá hefur Sindri unnið þá alla, með markatöluna 14-2.

Leikurinn fer fram á Sindravelli, sunnudaginn 12. ágúst kl. 14:00. Nánar verður greint frá leiknum þegar úrslit liggja fyrir.