KF heimsækir Einherja á Vopnafjörð – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

KF mætir Einherja á Vopnafjarðarvelli kl. 20:00 í kvöld í 3. deild karla. KF þarf að keyra tæplega 300 km fyrir þennan leik hvora leið. Liðin mættust í deildinni í fyrra og vann Einherji báða leikina, 2-0 á Vopnafirði og 0-1 á Ólafsfjarðarvelli. Liðin mættust þó nú á vormánuðum og vann KF 3-0 sigur sem getur gefið vind í seglin í kvöld. Einherji er jafnan erfiður heim að sækja, veðurskilyrði eru oft slæm þarna og miklir baráttuleikir. Liðið hefur þó farið hægt af stað og ekki náð í stig í fyrstu tveimur leikjum Íslandsmótsins. Einherji tapaði fyrir KV 3-0 í fyrstu umferðinni og 3-2 gegn KFG, en báðir leikirnir voru útileikir Einherja. Liðið varð í 6. sæti 3. deildar á síðasta ári með tveimur stigum minna en KF sem endaði í 5. sæti. Liðið hefur einn mikinn markaskorara, Todor Hristov, en hann gerði 11 mörk á síðasta tímabili og hefur  gert 40 mörk í 60 leikjum fyrir Einherja. Það er því spurning hver ætlar að dekka hann vel í kvöld? Lið Einherja er með fjóra erlenda leikmenn í sínu liði á þessu tímabili.

KF sigraði Augnablik í síðasta leik og eru komnir með 3 stig eftir tvo leiki, og vilja ólmir sækja sér fleiri stig í þessum leik. Nánar verður fjallað um leikinn þegar úrslit liggja fyrir.

Umfjöllun í boði Arion banka í Fjallabyggð.