KF gerði jafntefli við Reyni í Sandgerði

Það viðraði ekki vel til spila knattspyrnu á föstudaginn s.l. á N1-vellinum í Sandgerði þegar Tröllaskagadrengirnir úr KF heimsóttu Reyni í Sandgerði í 2. deild karla í knattspyrnu. Sunnanrokið var grimmt yfir þveran völlinn og það gekk á með skúrum. Knattspyrnan sem var leikinn var eðlilega nokkuð í takt við aðstæðurnar, lítt spennandi og fátt um fína drætti.

Reynismenn voru ívið sterkari og fengu gott færi eftir korters leik. Boltinn barst þá til Péturs Þórs Jaidee fyrir utan teig og sendi hann boltann í boga yfir Halldór I. Guðmundsson markvörð en varnarmenn gestanna náðu bjarga á marklínu.

Fátt markvert gerðist í rokinu fyrr en brotið var á Guðmundundi Gísla Gunnarssyni rétt fyrir utan vítateig KF þar sem hann var við það að sleppa í gegn þegar um 10 mínútur voru til leikhlés. Grétar Ólafur Hjartarson tók aukaspyrnuna og skaut föstu skoti í gegnum fjölda leikmanna í vítateignum í bláhornið á marki KF.  Stuttu seinna vildu KFmenn fá víti fyrir hendi en Örvar Sær Gíslason, sem dæmdi leikinn vel, var ekki sammála því.

Rétt fyrir hálfleik var Grétar Ólafur nærri því að bæta við öðru marki og aftur beint úr aukaspyrnu eftir að brotið var á Jóhanni Magna Jóhannssyni en í þetta skiptið varði Halldór í markinu vel.

Rokið var ekki minna í síðari hálfleik sem verður að teljast með þeim bragðdaufari sem leikinn hefur verið í Sandgerði. KF gerði strax tvær skiptingar á 46 mínútu en eftir 10 mínútna leik munaði litlu að Reynismenn bættu við forystuna. Miðvörðurinn Austin McIntosh stakk sér upp vinstri kantinn og sendi frábæra sendingu fyrir mark KF sem Grétar Ólafur rétt missti af.

Tveimur mínútum síðar jöfnuðu gestirnir með marki sem tveir varamenn skópu. Nenad Zivanovic átti þá langa sendingu inn fyrir vörn Reynis á Pál Sindra Einarsson sem afgreiddi knöttinn í netið. Litlu munaði að Reynismenn tækju forystuna á ný stuttu síðar. Enn átti Grétar Ólafur gott skot úr aukaspyrnu og aftur varði Halldór vel.

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks. Suðurnesjarokið virtist henta kraftabolta KF ágætlega og voru norðanmenn greinilega sáttir með að landa jafntefli á erfiðum útivelli. Reynismenn hljóta hins vegar að álíta að þeir hafi glatað tveimur stigum í rokinu á N1-vellinum.

Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.  Næsti leikur KF er gegn nágrönnunum í Dalvík/Reyni þann 1. júní.