KF gerði jafntefli við Hött

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Höttur frá Egilsstöðum mættust í gær á Ólafsfjarðarvelli í 2. deild karla í knattspyrnu. Tveir nýir leikmenn KF komu beint í byrjunarliðið, en það er markmaðurinn Isaac Sutil Maldonado og sóknarmiðjumaðurinn Daniel Cabrera Sanchez. Þórður Birgisson var hins vegar ekki á leikskýrslu en hann er nýkominn til liðsins frá Þór. Tveir fyrrum leikmenn KF spila nú með Hetti, en það voru markahæstu leikmenn KF á síðasta tímabili, Alexander Már og Jordan Chase Tyler.

Þetta var þriðji leikur milli þessara liða í ár, en þau mættust í vor í Lengjubikar og vann þá Höttur 4-2 og svo í deildinni á Fellavelli, og vann Höttur einnig þann leik 5-1. Jón Stefán þjálfari og Isaac Ruben Rodriguez Ojeda sem leikið hefur þrjá leikið og skorað 2 mörk  voru báðir í leikbanni vegna rauðra spjalda í síðasta leik.

Staðan var 0-0 í hálfleik en á 73. mínútu fær KF vítaspyrnu sem nýi leikmaðurinn Daniel Cabrera Sanchez tekur en nær ekki að skora. Leiknum lauk því með 0-0 jafntefli en 75 áhorfendur voru á vellinum.  KF er þá komið með 6 stig eftir 14 leiki, en jákvætt var að liðið hélt hreinu í þessum leik.  Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.