KF gerði jafntefli við Gróttu

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Grótta kepptu í gær á Ólafsfjarðarvelli í frestuðum leik í 2. deild karla í knattspyrnu. Fjórir síðustu leikir liðanna hafa verið miklir markaleikir, en liðin mættust síðast árið 2014 og fór þá 3-4 fyrir Gróttu á Ólafsfjarðarvelli og 5-1 fyrir Gróttu á þeirra heimavelli. Grótta var fyrir leikinn í 3. sæti með 18 stig en KF á botninum með 4 stig.  Grótta hafði aðeins fengið á sig 5 mörk í 9 leikjum fyrir þennan leik, fæst allra liða í deildinni. KF hafði aftur á móti fengið á sig 21 mark í 9 leikjum.  Það er skemmst frá því að segja að 107 áhorfendur mættu á þennan leik og endaði hann með 0-0 jafntefli.  KF hefur því sótt 4 stig í síðustu tveimur leikjum og jafnframt ekki fengið á sig mark í þeim. Næsti leikur er gegn Völsungi á Húsavík um næstu helgi.