KF gekk frá Magna í fyrri hálfleik

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Magna frá Grenivík í Lengjubikarnum í gær, og var leikið í Boganum á Akureyri. Bæði lið voru ósigruð í riðlinum en KF hafði þó leikið einum leik meira en Magni.

Fyrirfram var búist við jöfnum leik en Magni féll úr 1. deildinni sl. sumar og leika bæði liðin í 2. deildinni í sumar. KF stillti upp sterku liði og mættu vel stefndir til leiks.

KF átti hreint út sagt frábæran fyrri hálfleik, og byrjaðu leikinn mjög vel. Þeir fengu vítaspyrnu á 7. mínútu og Oumar Diouck skoraði úr henni og KF leiddi 1-0. Á 20. mínútu skoraði Aron Elí Kristjánsson fyrir KF og staðan orðin 2-0. Magni skoraði svo sjálfsmark á 28. mínútu og var því staðan orðin þægileg fyrir KF, 3-0. Oumar Diouck skoraði svo aftur fyrir KF á 36. mínútu og var staðan því orðin 4-0 og ekki kominn hálfleikur!

Magni gerði þrefalda skiptingu í hálfleik og náðu þeir að þétta vörnina.  KF gat leyft sér að gefa yngri leikmönnum tækifæri eftir því sem leið á leikinn. KF sigldi svo sigrinum í land og unnu þennan líka örugga sigur á Magna, 4-0.

KF er búið að tryggja sér sigur í riðlinum þrátt fyrir að eiga einn leik eftir gegn Kára. Liðið mun því leika í undanúrslitum B-deildarinnar.