KF fær þrjá leikmenn á lánssamningi

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur fengið þrjá unga leikmenn á lánssamningi til að spila með liðinu í vor og sumar. Allir leikmennirnir koma frá Magna á Grenivík og hafa mjög fáa leiki undir beltinu með meistaraflokki. Strákarnir hafa verið síðustu vikur á reynslu hjá KF og koma vonandi til með að styrkja liðið í sumar. Alls hafa sex leikmenn yfirgefið KF síðan í haust og ekki er ólíklegt að einhverjir fleiri leikmenn bætist við hópinn áður en Íslandsmótið hefst.

Nánar um nýju leikmennina:

Björn Andri Ingólfsson er fæddur árið 1998 og hefur leikið 1 leik í meistaraflokki með Magna, en hefur á síðustu árum leiki með 2. flokki KA.

Marinó Snær Birgisson er fæddur árið 1999 og hefur leikið 2 leiki í Inkassa-deildinni fyrir Þór. Hann hefur síðustu ár leikið með 2. flokki Þórs.

Oddgeir Logi Gíslason er fæddur árið 2000 og hefur leikið síðustu ár með 2. flokki og 3. flokki KA.