KF enn án sigurs í 2. deild karla

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélag Vesturbæjar mættust í gær á KR vellinum í 2. deild karla í knattspyrnu.  KV hefur byrjað mótið ágætlega og sótt 12 stig með fjóra sigra, en KF er enn án sigurs og eru neðstir í deildinni með 1 stig. KF lék síðast 11. júní en hlé hefur verið á deildinni vegna EM í knattspyrnu.

Ásgeir Frímannsson var kominn í markið hjá KF en það var eina breytingin á byrjunarliðinu frá síðasta leik. KV byrjaði leikinn betur og skoraði strax á 1. mínútu leiksins. Staðan var því 1-0 í hálfleik fyrir heimamenn. KV bætti svo við tveimur mörkum á 53. og 60. mínútu, staðan 3-0. KF gerði tvöfalda skiptingu á 65. mínútu og svo síðustu skiptingu á 80. mínútu. Lokatölur 3-0 og KF er neðst í deildinni með 1 stig eftir 7 leiki, skorað 2 mörk og fengið á sig 20. Stefnir í mikla fallbaráttu hjá KF í ár.

Leikskýrslu má lesa á vef KSÍ.