Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék sinn fyrsta leik á Norðurlandsmótinu um helgina við ungt lið KA-2. KF var með nokkra menn á reynslu í þessum leik í bland við unga og reyndari leikmenn. KA tefldi fram mjög unguliði, enginn þar var yfir 19 ára en flestir 16-18 ára. KF komst í 2-0 áður en fyrri hálfleik lauk, en hinn ungi og efnilegi Valur Reykjalín skoraði á 10. mínútu og Grétar Áki bætti við marki á 41. mínútu, en hann var fastamaður í liðinu síðastliðið sumar. KA menn minnkuðu muninn á 65. mínútu en KF menn svöruðu strax á 70. mínútu með marki frá Aksentije Milisic sem lék með Dalvík/Reyni 2015-2016 en lék með KF sumarið 2014. KA menn minnkuðu aftur muninn í 3-2 á 75. mínútu en varamaðurinn Hilmir Gunnar Ólason gerði út um leikinn á 90. mínútu og vann KF því 4-2. Hann hafði aðeins verið inn á í nokkur andartök þegar hann skoraði markið. Hilmir lék síðast mótsleik fyrir 10 árum síðan með 3. flokki Leiftri/KS/Dalvík.