Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Þróttur í Reykjavík mættust á AVIS-vellinum í Laugardal í dag í 15. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla í knattspyrnu. Heimamenn í Þrótti eru í góðri stöðu og harðri baráttu um að komast upp um deild eftir að hafa fallið úr 1. deildinni sl. sumar eftir slakt gengi undanfarin ár. KF hefur enn ekki náð sér í strik í sumar og voru í 7. sæti fyrir þennan leik og aðeins 5 stigum frá fallsæti. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri umferðinni í vor en þetta var aðeins fimmti leikur liðina í tæpan áratug sem þau mætast.

Aðalmarkmaður KF liðsins var ekki með í dag en í stað hans stóð Helgi Már Kjartansson vaktina, og vaktin var löng og erfið í dag. Þá byrjaði Jordan Damachoua á bekknum í dag hjá KF. KF hafði ekki unnið útileik á mótinu fyrir þennan leik, og Þróttararnir aðeins tapað einum heimaleik í sumar. Þróttur er með óvanalega mikið af erlendum leikmönnum í ár, en 5 slíkir voru í  byrjunarliðinu í bland við unga uppalda leikmenn liðsins.

Heimamenn í Þrótti komu mun ákveðnari til leiks í fyrri hálfleik og stjórnuðu ferðinni nánast allan leikinn. Vörn KF virkaði ekki vel í þessum leik og ekki nægur þéttleiki í liðinu og vantaði einhvern neista. Þróttarar voru hinsvegar öruggir á boltanum og flaut hann vel og átti liðið fjölmargar hættulegar sóknir í leiknum. Þróttur lék mikið upp kantana og beitti hættulegum skyndisóknum þegar færi gafst.

Þróttarar skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik, og gengu á lagið í síðari hálfleik með markaveislu. Þriðja mark heimamanna kom eftir langt útspark markmanns og tók sóknarmaður Þróttar glæsilega á móti boltanum og sendi hann rakleiðis fyrir markið á fær stöng þar sem annar sóknarmaður kláraði færið vel. Staðan 3-0 í hálfleik og KF þurfti sannarlega á breytingum að halda í síðari hálfleik.

Heimamenn héldu áfram að þjarma að KF sem virkuðu ekki traustir að sjá í þessum leik. Stór hætta skapaðist í fjölmörgum sóknum Þróttara í þessum leik. Eftir nokkrar mínútur í síðari hálfleik var staðan orðin 4-0, og gerði þá þjálfari KF tvöfalda skiptingu til að reyna stoppa í götin. Jordan og Symon komu inná á miðju og í vinstri bakvörð. Þróttur skoraði fimmta markið eftir gott spil um miðjan síðari hálfleik. KF gerði áfram skiptingar og Þróttur gat leyft ungum óreyndum leikmönnum að taka þátt í leiknum og spila sína fyrstu meistaraflokksleiki. Sjötta mark Þróttar kom undir lok síðari hálfleiks. KF svaraði nánast í næstu sókn eftir glæsilega afgreiðslu Julio Cesar Fernandes, markahæsta mann KF á tímabilinu, en þetta var 8 mark hans á Íslandsmótinu.

Lokatölur leiksins voru 6-1 fyrir heimamenn og hefði getað verið mun stærri, en þeir fóru illa með fjölmörg dauðafæri, og eitt mark var dæmt af sökum rangstöðu.

KF skapaði ekki mörg færi í þessum leik og voru alltaf skrefinu á eftir og vantaði einhvern kraft og trú í þeirra leik.

KF er nú í 10. sæti í deildinni. KF leikur í næstu umferð gegn Völsungi á Ólafsfjarðarvelli, föstudaginn 12. ágúst.