Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.
KF mætti Ægi frá Þorlákshöfn á Ólafsfjarðarvelli í dag. Leiknum seinkaði um 15 mínútur þar sem gestirnir komu seint til Fjallabyggðar. Liðin höfðu mæst í fjórum leikjum á síðustu fjórum árum og vann KF báða leikina á síðasta ári en liðin gerðu jafntefli og svo vann Ægir sinn heimaleik árið 2016. Ægir var með 7 stig fyrir leikinn og KF aðeins 3 stig svo það var mikið undir hjá heimamönnum sem höfðu byrjað mótið frekar illa. KF var án sigurs í síðustu þremur leikjum fyrir þennan leik.
Björn Andri og Aksentije Milisic voru ekki í byrjunarliði en Björn Andri byrjaði á bekknum og Aksentije var ekki í hóp. Sævar Þór og Kristófer Andri komu inni í byrjunarliðið í þessum leik. Völlurinn var mjög blautur í þessum leik og reyndu gestirnir hvað eftir annað að krossa frá væng og inn í teig en varnarmenn KF stóðu vaktina vel í þessum leik. Staðan var 0-0 í hálfleik en meira fjör var í síðari hálfleik. Markaskorarinn Jonathan Hood kom inná á 60. mínútu fyrir Ægi og hann átt eftir að koma við sögu í síðari hálfleik. Jakob Auðun kom inná fyrir Friðrik Örn á sömu mínútu fyrir KF. En á 62. mínútu missa Ægismenn leikmann af velli með sitt annað gula spjald á 8 mínútum. Þjálfari KF gerði strax skiptingu til að bregðast við þessu og setti Björn Andra inn fyrir Sævar Þór. Ljubomir Delic skorar svo þegar um 20. mínútur eru eftir af leiknum, og staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn. Þegar um 10 mínútur eru eftir af leiknum fær Jonathan Hood beint rautt spjald fyrir ljótt brot á leikmanni KF, og heimamenn orðin tveimur fleiri. Á 83. mínútu fékk svo einn af liðsstjórum Ægis rautt spjald fyrir mótmæli. Grétar Áki innsiglaði svo sigur KF á 87. mínútu með góðu marki. Staðan 2-0 og nokkrar mínútur eftir. KF náði að halda út og náðu dýrmætum þremur stigum í þessum leik.
KF er núna í 8. sæti eftir 6 umferðir og er með 6 stig.