KF á tvo leiki eftir af Íslandsmótinu

KSÍ hefur ákveðið að Íslandsmótið í knattspyrnu skuli klárað. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar fær því tvo leiki til viðbótar á þessu ári. Næsti leikur liðsins verður gegn toppliðinu Kórdrengjum, laugardaginn 7. nóvember. Leikurinn fer fram á Framvellinum í Reykjavík. Síðasti leikur liðsins er svo gegn Fjarðabyggð á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 14. nóvember. Þetta er auðvitað háð fjölmörgum skilyrðum, en líklegra er þó að leikurinn á Ólafsfirði færist á annan völl ef aðstæður verða erfiðar.

KF er í 6. sæti og getur ekki náð næsta liðið þótt liðið taki 6 stig úr þessum tveimur leikjum. Liðið mun því enda í 6.-8. sæti, eftir úrslitum þessara leikja og annarra.

KF hefur staðfest að Sachem Wilson muni ekki leika síðustu tvo leiki liðsins, en hann fer á næstu dögum til Bandaríkjana, en mun koma aftir og leika með liðinu á næsta tímabili. Hann hefur átt gott tímabil í sumar og er næstmarkahæsti leikmaður KF í sumar, með 9 mörk í 19 leikjum.

Oumar Diouck er markahæstur hjá KF í sumar, með 12 mörk í 19 leikjum og staðið sig mjög vel.

Við verðum með fréttir og viðtöl við leikmenn þegar Íslandsmótinu lýkur í nóvember og förum yfir sumarið og spáum í framhaldið.