Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar enn á toppnum

Íslandsmótið í blaki fór fram á Siglufirði í dag og heldur áfram á morgun. Blakfélag Fjallabyggðar í 2. deild karla lék tvo leiki í dag og sigraði báða leikina 2-1. Fyrri leikurinn var gegn Stjörnunni 2, og byrjaði Stjarnan leikinn betur og vann fyrstu hrinuna 20-25. BF vann næstu hrinu nokkuð örugglega, 25-17 og lokahrinuna 15-11. BF lék næst gegn HK-C en það var einn af lykil leikjum helgarinnar í toppbaráttunni. HK byrjaði leikinn betur og vann fyrstu hrinuna örugglega 14-25. BF komu sterkir til baka og jöfnuðu leikinn 25-16. BF vann síðustu hrinuna örugglega, 15-6. BF leikur svo þrjá leiki á morgun og þá ráðast úrslitin í toppbaráttunni.

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék 2 leiki í dag, en liðið er á botni 2. deildar og vantar sárlega stig. Fyrsti leikur þeirra í dag var gegn HK-C sem er einnig í botnbáráttunni.  Fyrsta hrinan var jöfn en BF vann hana 25-21. Önnur hrina var einnig hnífjöfn en HK vann hana 23-25. Heimamenn höfðu svo betur í lokahrinunni og unnu 15-13, og leikinn 2-1. Næsti leikur BF var gegn HK-H sem er í toppbáráttunni. BF byrjaði leikinn vel og vann fyrstu hrinuna nokkuð örugglega, 25-17. Hrina tvö var nokkuð jöfn en endaði með sigri HK 21-25. Lokahrinan var einnig jöfn en HK vann hana 11-15, og leikinn 1-2. BF á fjóra leiki á morgun og þarf á fleiri stigum að halda, en ljóst er að dagurinn verður erfiður á morgun.