Kammertónleikar Berjadaga á föstudaginn

Kammertónleikar Berjadaga í Ólafsfirði verða á föstudaginn næstkomandi í Ólafsfjarðarkirkju, en hátíðin hefst á fimmtudaginn.
Hin unga og upprennandi Hulda Jónsdóttir fiðluleikari og Bjarni Frímann Bjarnason leiða saman hesta sína í stórkostlegum verkum: Fluttar verða tvær franskar fiðlusónötur eftir þá meistara Francis Poulenc og Camille Saint-Saëns. Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari verður þeim Bjarna og Huldu til fulltingis í hinu magnaða píanótríói hins stórhuga Beethovens sem nefnt hefur verið „Drauga-tríóið“.

Tónlistarhátíðin Berjadagar 2017 fer fram á Ólafsfirði 17.-20. ágúst. Á hverju kvöldi verða klassískir tónleikar og fleiri viðburðir á daginn. Dagskráin er fyrir alla aldurshópa og ókeypis aðgangur fyrir 18 ára og yngri.  Hátíðarpassi fyrir alla tónleika og viðburði hátíðarinnar kostar 9500 kr. og miðar á staka tónleika á 3000 kr.