Aprílmánuður var kaldur á landinu. Kaldast var inn til landsins á norðaustan- og austanverðu landinu. Fyrstu fjórir dagarnir voru hlýir en síðan ríkti kuldatíð. Snjór var til ama víða norðan- og austanlands og norðantil á Vestfjörðum. Úrkoma var víðast hvar innan við meðallag.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,9 stig og er það 1,0 stigi undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 2,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu aprílmánaða. Svona kalt hefur ekki verið í apríl í Reykjavík síðan árið 2000. Á Akureyri var meðalhitinn -0,4 stig sem er 2 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 3,8 stigum undir meðallagi síðustu 10 aprílmánaða. Apríl hefur ekki verið jafnkaldur á Akureyri síðan 1990.