Kajak og gönguferðir á Siglufirði með Top Mountaineering

Hjónin Gestur og Hulda stofnuðu fyrirtækið Top Mountaineering á Siglufirði fyrir nokkrum árum til að geta sinnt aukinni eftirspurn ferðamanna og hópa sem óskaði eftir leiðsögn um fjöllin í Fjallabyggð og á Tröllaskaga. Þau störfuðu áður til margra ára í Ferðafélagi Siglufjarðar, en eru nú með skrifstofu við Suðurgötu 4 á Siglufirði.  Þau hafa verið að bæta við afþreyingu á Siglufirði og fjárfest í bátum til að sigla með fólk um fjörðinn og einnig á Siglunes með gönguhópa, þar sem boðið er upp á leiðsögn. Í vor var fjárfest í nokkrum kæjökum sem hafa farið vel á stað.

Megin markmið Top Mountaineering er að bjóða uppá fjallgöngur, en það koma pantanir frá ferðaskrifstofum bæði hér heima og erlendis frá og eru um 80-90% erlendir ferðamenn. Næstu daga verður boðið upp á skipulagðar ferðir frá Siglufirði og er hægt að fá nánari upplýsingar um þær ferðir hér á vefnum.