Annar flokkur KA, eða KA-2 keppti við Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í vikunni í B-deild Kjarnafæðismótsins, en leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri. Í liði KA-2 eru strákar fæddir á árinu 1999-2001 og eru í 2. flokki. Í liði KF eru fastamenn síðustu ára í bland við unga og óreynda stráka sem eru á reynslu hjá félaginu. Í þessum leik voru nokkrir leikmenn frá KA á reynslu hjá KF, auk leikmanns frá Magna og Dalvíkur/Reynis.
Bæði lið höfðu leikið einn leik fyrir þennan, og var KA-2 með þrjú stig en KF eitt stig. KA strákarnir byrjuðu af krafti og voru komnir í 3-0 eftir 30. mínútur og var það staðan í hálfleik. Á þriðju mínútu síðari hálfleiks komst KA í 4-0, en KF svaraði eftir tvær mínútur með marki, og minnkaði muninn í 4-1. Mark KF gerði Grétar Áki, en lokatölur leiksins urðu 4-1 fyrir heimamenn.
Fyrsta mark KA kom eftir fasta aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig, en markmaður KF réð ekki við það og sló boltann út í teig og náðu KA menn frákastinu og skoruðu. Annað mark KA manna var glæsilegt, en það kom eftir langa sókn og barst boltinn út í teig til hliðar við markið og var skotið sérlega glæsilegt og óverjandi fyrir markmann KF. Þriðja mark KA kom eftir fyrirgjöf frá kantinum og barst boltinn til sóknarmanns KA sem skoraði auðveldlega.