KA vann Grindavík í fyrsta skipti í 11 ár

Það var búist við hörkuleik í Grindavík á föstudagskvöld eins og venja er þegar KA og Grindavík mætast en liðin hafa eldað grátt silfur á síðustu árum. Fyrir leikinn hafði KA ekki unnið í Grindavík frá árinu 2007 og voru strákarnir staðráðnir í að breyta því.

KA liðið hóf leikinn af miklum krafti, heimamenn komust ekkert fram völlinn og strákarnir áttu nokkrar hættulegar tilraunir. Hrannar Björn Steingrímsson átti fast skot fyrir utan teig sem Kristijan Jajalo varði vel og skömmu síðar átti Daníel Hafsteinsson skalla yfir markið.

Það var því hrikalega svekkjandi fyrir KA þegar fyrsta markið kom á hinum enda vallarins en Alexander Veigar Þórarinsson skoraði eftir langt innkast á 8. mínútu og var það í fyrsta skiptið sem heimamenn höfðu komist nálægt teig KA manna.

Áfram héldu KA strákarnir að pressa heimamenn og greinilegt að þeir ætluðu ekki að láta markið taka sig útaf laginu. Elfar Árni Aðalsteinsson fékk úrvalsfæri eftir frábæran undirbúning hjá Daníel en skot hans var framhjá. Bjarni Mark Antonsson átti svo hornspyrnu sem endaði í þverslánni og Elfar Árni rétt missti af boltanum í kjölfarið.

Markið lá í loftinu og það kom á 31. mínútu þegar Ásgeir Sigurgeirsson skallaði boltann laglega í netið eftir flotta aukaspyrnu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni. Áfram var mikið líf í leiknum út hálfleikinn en fleiri urðu mörkin ekki og staðan því 1-1 eftir mjög flotta spilamennsku.

KA fékk úrvalsfæri á 65. mínútu en Jajalo gerði virkilega vel að verja frá honum. Stuttu síðar komust Grindvíkingar í skyndisókn og Sito brunaði að markinu og var við það að skjóta þegar Milan Joksimovic gerði virkilega vel í að tækla boltann í burtu.

Marinó Axel Helgason fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt er hann braut á Milan, KA manni fleiri og rétt tæpar 20 mínútur eftir af leiknum. Fyrir utan Sito virtist vera sem heimamenn væru sáttir með stigið og í kjölfar spjaldsins lögðu þeir enn meira í að verjast sóknum okkar liðs.

KA gekk erfiðlega að skapa sér færi og leit allt út fyrir að leikurinn myndi enda með jafntefli. Það var því vægast sagt sætt þegar Ýmir Már Geirsson sem hafði komið inn sem varamaður þrumaði boltanum í netið eftir laglega sendingu frá Elfari Árna .

 

Grindavík 1 – 2 KA
1-0 Alexander Veigar Þórarinsson (‘8)
1-1 Ásgeir Sigurgeirsson (’31)
1-2 Ýmir Már Geirsson (’92)

Texti: ka.is