KA beðið í 10 ár uppbyggingu á svæðinu

Aðalstjórn KA stóð fyrir opnum fundi í KA-heimilinu síðastliðinn miðvikudag. Þar fluttu Ingvar Már Gíslason, formaður og Eiríkur S. Jóhannsson varaformaður framsögu um rekstrarumhverfi félagsins og framtíðar hugmyndir um uppbyggingu á félagssvæði KA.

KA menn létu sig ekki vanta, enda um mikilvæg málefni að ræða, og mættu rúmlega 300 manns á fundinn.

Fram kom í máli Ingvars að KA hafi líklega aldrei staðið betur félagslega, enda hefur iðkendafjöldi vaxið um 57% frá árinu 2012 og voru iðkendur KA ríflega 1.700 talsins á árinu 2017. Verði þróunin sú sama og undanfarin ár má gera ráð fyrir því að iðkendur hjá KA verði orðnir yfir 2.000 á næstu 2-3 árum.

Erfiður og flókinn rekstur

Jafnframt kom fram að rekstur félagsins er um margt flókinn og gerði Ingvar sérstaklega grein fyrir rekstri aðalstjórnar félagsins og því umhverfi sem félagið býr við í dag. Fram kom að taprekstur var á aðalstjórn á árinu 2017 og verði haldið áfram með sama hætti megi jafnframt búast við taprekstri á árinu 2018. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að félagið hefur stækkað að umfangi og dugar fjárframlag Akureyrarbæjar samkvæmt rekstrarsamningi engan vegin til, til að standa straum af hækkandi rekstrar og launakostnaði við rekstur mannvirkja og skrifstofu félagsins. „KA veitir gríðarlega mikla þjónustu sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Ég er þess fullviss að samningur KA við Akureyrarbæ er margfalt meira virði fyrir bæinn en sú upphæð sem KA fær greidda árlega fyrir þjónustuna“ sagði Ingvar meðal annars í erindi sínu.

Fundarmenn voru jafnframt upplýstir um að aðalstjórn hefði í langan tíma óskað eftir leiðréttingu á rekstrarsamningi fyrir árið 2018. Þær viðræður stæðu enn yfir en KA teldi að ójafnræðis gætti milli félagsins og annara íþróttafélaga þegar kæmi að rekstri þess, hvort sem litið er til daglegs reksturs eða rekstur íþróttamannvirkja. Allur samanburður sýndi að verulega hallaði á KA í fjárframlögum Akureyrarbæjar til íþróttafélaga og í raun væri KA að greiða með rekstrinum eins og staðan væri í dag.

Samningur við Akureyrarbæ

Fram kom í máli Eiríks að árið 2007 gerðu KA og Þór samninga við Akureyrarbæ varðandi uppbyggingu mannvirkja á þeirra svæðum. Það er skemmst frá því að segja að samningurinn við Þór var efndur og er þar nú m.a. glæsilegur keppnisvöllur fyrir knattspyrnu með stúku ásamt flottri frjálsíþróttaaðstöðu sem uppfyllir öll skilyrði þar um.

Samningurinn við KA var hinsvegar geymdur þar sem Akureyrarbær fór þess á leit við KA að fresta framkvæmdunum vegna efnahagsástandsins sem þá hafði skapast. KA varð eðlilega við þessari beiðni og fékk í staðinn tímabundin afnot af Akureyrarvelli þar til að farið yrði í uppbyggingu á KA-svæðinu.

Nú eru liðin 10 ár og hefur KA verið í biðstöðu á þeim tíma. Vissulega fór bærinn í framkvæmd á gervigrasvelli á KA-svæðinu og erum við þakklát fyrir það en það er ljóst að Akureyrarbær hefur fengið mikið til baka fyrir þá fjárfestingu enda er völlurinn í stöðugri notkun fyrir KA sem og önnur félög á Akureyri, nánast á hverjum degi ársins!

Fram kom hjá Eiríki að Akureyrarbær hefði á árunum 2000-2016 fjárfest fyrir 7.700 milljónir í íþróttamannvirkjum í bæjarfélaginu á verðlagi ársins 2016.  Þar af væru fjárfestingar á félagssvæði KA 650 milljónir á meðan um 3.000 milljónir hefðu farið í uppbyggingu á félagssvæði Þórs, 1.400 milljónir í íþróttahús við Giljaskóla, 730 milljónir í sundlaug Akureyrar, án rennibrauta, og 680 milljónir í íþróttamannvirki í Hrísey. Sagði Eiríkur að allt væru þetta góðar fjárfestingar sem væru bænum til mikils sóma.

Í ljósi framkvæmdasögunnar, í ljósi þeirrar gríðarlegu fjölgunar sem hefur verið í þeim hverfum sem KA þjónustar, í ljósi fjölgunar iðkenda á vegum félagsins teljum við að nú sé svo sannarlega röðin komin að uppbyggingu á KA-svæðinu“ sagði Eiríkur.

Texti og mynd: ka.is