Jónas Skúlason nýr formaður Siglfirðingafélagsins

Ágætis mæting var á aðalfund Siglfirðingafélagsins í gærkvöld sem haldinn var í Safnaðarheimili Bústaðakirkju í Reykjavík. Fram kom í skýrslu stjórnar að félagið stæði á ákveðnum tímamótum. Illa hefur gengið að virkja inn nýtt ungt fólk í félagið síðustu árin. Rætt var um það væru tveir kostir fyrir félagið í framtíðinni: Halda áfram með Siglfirðingafélagið og hætta tilraunum að fá ungt fólk inn í félagið, sem þekkir Siglufjörð núna sem hluta af Fjallabyggð. Hinn kosturinn væri að breyta nafninu í Fjallabyggðarfélagið. Um þetta var rætt undir liðinum “önnur mál” á aðalfundinum.

Jónas Skúlason, fyrrverandi varaformaður félagsins, var kosinn formaður og tók við af Rakel Fleckenstein Björnsdóttur, sem lét af embætti eftir 8 ára setu á formannsstóli. Ný í stjórn voru kosin Birgir Gunnarsson, Gunnhildur Gígja Þórisdóttir og Hlöðver Sigurðsson en þau tóku sæti Halldóru Jónasdóttur, Jónasar Skúlasonar og Söndru Hjálmarsdóttur.

Stjórn Siglfirðingafélagsins fyrir starfsárið 2018-2019 er því þannig skipuð: Jónas Skúlason, formaður, Ásdís Jóna Sigurjónsdóttir, Gunnar Trausti Guðbjörnsson, Margrét Birgisdóttir, Birgir Gunnarsson, Guðrún Gígja Þórisdóttir og Hlöðver Sigurðsson.