Jómfrúarferð Eyjaflugs til Sauðárkróks snúið við

Flugvél frá Eyjaflugi sem lenda átti á flugvellinum á Sauðárkróki í morgun þurfti að snúa við vegna bilunar í hjólabúnaði. Vélin lenti heilu og höldnu í Reykjavík um kl. 9:30. Þetta átti að vera fyrsta flug félagsins til Sauðárkróks. Þetta kemur fram á mbl.is.

Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að flugmaður vélarinnar hafi tilkynnt að hann ætti við einhver vandræði að stríða í sambandi við hjól vélarinnar. Ekki hafi verið lýst yfir neinu hættu- eða viðbúnaðarástandi.

Þegar flugvélin kom til Reykjavíkur flaug hún upp að flugturninum og flugumferðarstjórar gátu staðfest að bæði hjól vélarinnar væru niðri. Vélin lenti síðan á vellinum, en slökkvibíll fylgdi henni eftir út á flugbrautina. Talið er víst að bilun hafi verið í ljósabúnaði sem leiddi til þess að ekki kviknaði á ljósi sem sýnir að hjól vélarinnar hafi farið niður fyrir lendingu.

Heimild: mbl.is