Jólaviðtalið þennan Þorláksmessumorgun er við Óskar Þórðarson, kennara í Fjallabyggð. Óskar kennir í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Helstu greinar sem hann kennir eru: Íþróttir, lýðheilsa, líffæra- og lífeðlisfræði og næringarfræði. Óskar hefur einnig kennt íþróttir í Menntaskólanum á Laugarvatni, verið aðjúnkt í íþróttafræðum við HÍ og KHÍ og kennt íþróttir við Grunnskólann á Siglufirði.  Óskar er með meistarapróf í þjálfunarfræðum með áherslu á körfuknattleik og Cand Mag í þjálfun með áherslu á knattspyrnu og íþróttalífeðlisfræði. Hann hefur einnig verið forsvarsmaður Blakfélags Fjallabyggðar sem var formlega stofnað árið 2016. Óskar hefur einnig starfað fyrir Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, meðal annars sem framkvæmdastjóri.

Jólaviðtal

  1. Hvað finnst þér best við jólin?  Sem kennari þá finnst mér afskaplega gott að komast í jólafrí en samverustundir með nánustu eru bestu stundirnar um jólin sem og á öðrum tíma ársins.
  2. Hvað kemur þér í jólaskap?  Þessar hefðbundnu jólatengdir hlutir eins og að pakka inn gjöfunum og skreyta jólatréið með fjölskyldunni.
  3. Hvað borðar þú á jólunum?  Á aðfangadag er svínahamborgarahryggur og kalkúnn, nú á Jóladag gæðir maður sér á hangikjöti og svo um áramótin er m.a. eðal naut og oft smakk af einhverju öðruvísi kjöti.
  4. Hvað finnst þér ómissandi að gera um jól og áramót?  Að kúra með fjölskyldunni yfir góðri mynd er einstaklega notalegt. Einnig finnst mér frábært að fara út að leika með drengina í snjónum ef það er möguleiki. Nú sem knattspyrnuunnandi þá er enski boltinn stór hluti af jólahátíðinni 🙂
  5. Ferðu í kirkju um jólin?  Á uppvaxtarárum mínum fór ég alltaf í kirkju á aðfangadag en undanfarin ár hef ég því miður ekki gert það.
  6. Hvernig jólatré ertu með?  Við erum með 2ja metra gervitré sem við hjónin keyptum fyrstu jólin okkar eftir að við fluttum á Siglufjörð eða  frá árinu 2009 og það tré er við góða heilsu enn þann dag í dag.
  7. Ferðu á brennu um áramótin?  Nánast undantekningarlaust hef ég gert það frá því ég man eftir með. Það er virkilega ánægjuleg stund að fara á brennu með fjölskyldunni, sérstaklega þegar veður er fallegt.