Jólaviðtalið – Jón Valgeir Baldursson

Jón Valgeir Baldursson er 47 ára Ólafsfirðingur og eigandi JVB-Pípulagna ehf. Jón var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Hann er giftur Hrönn Gylfadóttur, og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn.  Á sínum yngri árum stundaði Jón skíðamennsku og einnig hefur fjölskyldan hans verið dugleg á skíðum.

Jón stundaði á yngri árum nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Jón var háseti á frystitogaranum Sigurbjörg ÓF-1 í 16 ár en ákvað þá að skella sér í nám í pípulögnum og loks í meistaranám. Hann vann við sjúkraflutninga í Ólafsfirði og hjá Slökkviliði Fjallabyggðar. Þá hefur hann unnið fyrir Vélsmiðju Ólafsfjarðar, en ákvað svo að hefja eigin rekstur. Jón var á lista Framsóknarmanna í sveitastjórnarkosningum í Fjallabyggð árið 2014. Hann var svo Oddviti H-listans fyrir Heildina árið 2018 og hlaut næstflest atkvæði kjörinna fulltrúa. Jón Valgeir er aðalmaður í Bæjarstjórn Fjallabyggðar.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér á vefnum.

Jólaviðtalið – Jón Valgeir Baldursson

Ertu mikið jólabarn?    

Já, ég tel mig vera mjög mikið jólabarn, hlakka alltaf til jólanna, og hef gaman af stússinu í kringum skreytingar og undirbúning fyrir jólin.

Skreytir þú mikið í ár?   

Það fer eftir því hvernig við skilgreinum mikið??? Ég tel okkur skreyta alveg þokkalega mikið bæði innan- og utandyra og við bætum alltaf við á hverju ári, erum með langt á annað hundrað jólasveina dreifða um húsið og þeim fer fjölgandi.

Hver er uppáhaldsjólaminning þín?  

Minningarnar eru mjög margar og skemmtilegar og erfitt að segja til um hver er uppáhalds, en sterkasta minningin er sennilega sú þegar ég kom heim af sjónum að morgni Þorláksmessu og mamma og pabbi voru að klára að græja efri hæðina á húsinu sínu og ætlunin var að vera með tréið uppi og vera þar á aðfangadagskvöld. Ég var á næturvöktum á sjónum þennan túrinn og kom því ósofinn heim og beint í að vinna með þeim gömlu, unnum langt fram á nótt og byrjuðum aftur snemma á aðfangadagsmorgun og ég man að ég var inni í jólasturtunni þegar ég heyrði jólin hringd inn kl. 18. Aðfangadagskvöldið einkenndist auðvitað af því að það voru allir búnir á því og hefur heimilisfólkið sennilega aldrei farið eins snemma í rúmið á aðfangadagskvöldi.

Annars á ég mjög góðar minningar frá því að þegar ég var ungur strákur þá hittist ættin á aðfangadagskvöld heima í Vesturgötunni hjá ömmu og afa.

Hvað er ómissandi á jólunum?     

Heimagerði ísinn sem ég og Sunna Karen dóttir mín búum alltaf til saman , Toblerone ís og rommkúluís, þegar þetta er klárt þá er ég tilbúinn í jólin.

Hvert er besta jólalagið?  

Hlusta mikið á jólög Baggalútsmanna á aðventunni en uppáhalds held ég að sé  “Komdu um jólin” með Gunnari Ólafs.

Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?    

Það er misjafnt, við reynum að finna okkur tíma saman við hjónin og dóttirin, sem er eina barnið sem er ennþá býr hérna heima hjá okkur, fer eftir tíma og stemmingu, við til dæmis settum það ekk upp fyrr en 15. des. þetta árið.

Hverjir verða í „jólakúlunni“ þinni í ár? 

Nánasta fjölskyldan, (börn, tengdadætur og afaskvísa)

Hvernig getum við haldið í gleðina þessi undarlegu jól? 

Höldum í bjartsýnina, vonina, gleðina og hlýjuna,  það er undir okkur sjálfum komið að finna þessi mikilvægu atriðið í hjartanu.

Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?

Við hjónin höfum aldrei fest okkur niður á einhverjar sérstakar jólahefðir, en skötuveislan okkar á þorláksmessunni er vonandi eitthvað sem mun halda sér um ókomna tíð, þótt svo að það sé undantekning á því í ár, það kemur ekkert annað til greina en að hlýða Víði, Þórólfi og Ölmu.
Svo má nefna þá hefð sem hefur skapast undanfarin ár að ég og dóttir mín búum til ís saman fyrir jólin, en hvað gerist þegar hún flytur að Heiman, (vandi er um slíkt að spá)
Einnig er gott að halda í þá hefð að bjóða jólin velkomin inn á heimilið!

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu? 

Held að við séum búin að versla á öllum þessum vígstöðvum þetta árið.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?   

Já það er að sjálfsögðu “Christmas Vacation”.

Hvað borðar þú á jólunum?  

Í hádeginu á aðfangadag er boðið upp á heita skötustöppu (afgangar frá þorláksmessunni) og mjólkurgraut og slátur. Það er alltaf hamborgarhryggur á jólaborðinu hjá okkur á aðfangadagskvöld ásamt heimatilbúnum ís í eftirrétt og svið og hangikjöt á jóladag ásamt afgöngum af hamborgarhryggnum.

Mynd úr einkasafni JVB.