Jólaviðtalið – Jóhann K. Jóhannsson

Jóhann K. Jóhannsson var í jólaviðtali hjá okkur í desember.
Jóhann starfar sem slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð og hóf störf í vor. Hann flutti með fjölskylduna til Fjallabyggðar og hefur nýlega keypt sér íbúð á Siglufirði og komið sér vel fyrir. Jóhann og Eva, eiginkona hans, eiga eitt barn saman en þrjú úr fyrri samböndum. Tvö af fjórum börnum þeirra búa á Siglufirði. Jóhann ólst upp í Breiðholtinu í Reykjavík. Þrátt fyrir það líður honum betur á landsbyggðinni heldur en í borginni.
Flestir kannast við Jóhann úr fréttum Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar þar sem hann starfaði um árabil en þar áður starfaði hann sem slökkvi­liðs- og sjúkra­flutningamaður á árunum 2005 til 2013.
Fleiri jólaviðtöl við íbúa í Fjallabyggð má lesa hér á síðunni.

Jólaviðtalið – Jóhann K. Jóhannsson

Ertu mikið jólabarn?

Já, ég ætti erfitt með að neita því að ég sé jólabarn. Jólaljósin og jólaskrautið brjóta um hversdagsleikann og jólaandinn nær ákveðinni fullkomnun þegar snjórinn er með. Svo hef ég alveg óskaplega gaman að því að elda góðan mat þannig að yfirleitt tek ég að mér það verkefni að sjá um jóla- og hátíðarmatinn.

 

Hver er uppáhaldsjólaminning þín?

Þær eru nokkrar. Við Eva konan mín leggjum mikið upp úr því að búa til minningar og samverustundir saman, með börnunum og fjölskyldunni. Fyrir nokkrum árum eyddum við jólunum á Seattle og voru börnin þá heima á Íslandi. Þau jól vorum við á skíðum í Kristalsfjöllunum sem var algjörlega geggjað. Gæti alveg hugsað mér að gera það aftur.

 

Hvað er ómissandi á jólunum?

Samverustundirnar eru ómissandi og njóta þess að slaka á. Mér finnst reyndar að það eigi að vera regla að það sé jólasnjór en það er víst ekki á okkar valdi að svo sé alltaf. Þá verð ég að fá purusteik að minnsta kosti einu sinni.

 

Hvað kemur þér í jólaskap?

Það er svo margt. Rétta tónlistin á meðan maður byrjar að setja upp jólaskrautið startar svolítið jólunum.

 

Hvaða jólalag er í uppáhaldi hjá þér?

Það er mismunandi hver jól. Ég er nær alæta á tónlist almennt.

 

Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?

Ef ég fengi að ráða mundi ég setja það upp í síðasta lagi svona tíu dögum fyrir jól. Það fór full seint upp fyrir þessi jól.

 

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Sem barn fór ég reglulega í kirkju en í seinni tíð hef ég ekki gert það. Mér finnst oft gott að hlusta á messuna í útvarpi við undirbúning jólanna á aðfangadag.

 

Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?

Hamborgarhryggurinn…hann verður að vera. Grunar samt að ég fá hann ekki á diskinn á aðfangadag þessi jól.

 

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Það er mismunandi. Ég er með ofnæmi fyrir stressi þannig að ég er ekkert rosalega spenntur fyrir því að flækjast á milli staða í Reykjavík. Hjá okkur fjölskyldunni voru jólainnkaupin svolítið bland úr verslun í heimabyggð, á Akureyri og svo í Reykjavík.

 

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Þær eru nokkrar sem eru orðnar klassískar. Fyrsta Die Hard myndin, Christmas Vacation og svo framvegis.

 

Hvað borðar þú á jólunum?

Hamborgarhryggurinn. Verður víst ekki í ár þar sem jólalamb verður á boðstólnum. Vona samt að ég nái að sannfæra fjölskylduna um hamborgarhrygg aftur á næsta ári.