Jólaviðtalið – Hanna Sigga

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir var í Jólaviðtali hjá okkur í desember. Hanna Sigga eins og hún er kölluð er uppalin á Siglufirði og er sjálfstæður atvinnurekandi og eigandi Snyrtustofu Hönnu. Hún hefur undanfarin áratug starfað sem snyrtifræðingur á Siglufirði en starfaði áður sem slíkur á höfuðborgarsvæðinu áður en hún fluttist aftur til Siglufjarðar. Hanna Sigga er dóttir Ásgeirs Sölvasonar og Erlu Gunnlaugsdóttur, og á hún þrjú systkini. Hanna Sigga stundaði nám í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra eftir skólagönguna á Siglufirði en er núna í Háskólanum á Bifröst í námi. Hún var á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2021 í Norðausturkjördæmi og skipaði 7. sætið. Lesið skemmtilegt viðtal við Hönnu Siggu þar sem hún talar um hressingarstopp og skemmtirispu.

Fleiri jólaviðtöl við íbúa í Fjallabyggð má lesa hér á síðunni.

Jólaviðtal – Hanna Sigga

 

  1. Ertu mikið jólabarn?  Já það er ég, jólin eru dásamlegasti tími ársins í mínum huga. Ég byrja yfirleitt að lauma inn einu og einu jólalagi í október svo stigmagnast þetta, byrja alla morgna í nóvember með jólalagi svo gott start inn í daginn. 
  1. Hver er uppáhaldsjólaminning þín? Jólaboðin heima hjá ömmu og afa á Laugarvegi 46, þar kom föðurfjölskyldan saman á aðfangadagskvöldi eftir að allir höfðu borðað jólamatinn og opnað jólagjafirnar. Þar fengum við heitt súkkulaði, jólasmákökur, margar sortir, ásamt hnallþórum að hætti húsfreyjunnar. Þar var alltaf glatt á hjalla og gott að vera. Án efa allra bestu stundirnar og þær dýrmætustu.
  1. Hvað er ómissandi á jólunum? Það er hefð hjá mér að fara í lok vinnu á Þorláksmessukvöldi til Guðnýjar stórfrænku í kjúklingasúpu, smá rauðvínstár og notarlegheit en þannig slútta ég líka desember vinnutörninni og tek vel á móti kærkomnu jólafríi.
  1. Hvað kemur þér í jólaskap? Undirbúningurinn og aðvenntan hún er svo skemmtileg, allar fjölskyldu og vinastundirnar í aðdraganda jóla. Þetta er bara svo dásamlegur tími.
  1. Hvaða jólalag er í uppáhaldi hjá þér? Þau eru ansi mörg afar falleg og mikið spiluð hjá mér, en það er eitt lag sem er alltaf uppáhalds og kemur mér í jólaskap það er Jól alla daga með Eiríki Haukssyni, lag sem hefur verið í uppáhaldi frá því ég var krakki. Þessa dagana spila ég mikið nýja Baggalúts lagið “Það styttist” ótrúlega góður smellur.
  1. Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili? Mjög misjafnt en yfirleitt um miðjan desember.
  1. Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn? Já það er svo sannarlega ómissandi hefð að fara í kirkjugarðana og í kirkjuna þó ég sé nú ekkert sérstaklega kirkjurækin almennt. Það er svo fallegt að tendra ljós hjá fólkinu sínu. Ég fer alltaf með pabba í kirkjugarðana og svo förum við fjölskyldan öll í messu á Aðfangadag, það er svo hátíðlegt að hlusta á alla fallegu jólasálmana og ganga svo út úr kirkjunni þegar jólin hringja inn.
  1. Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu? Ég reyni að vera búin að versla allar jólagjafir áður en að jólamánuðurinn gengur í garð þar sem desember er háannatími hjá mér á snyrtistofunni og ég hef lítinn tíma til að stússast í jólagjafakaupi. Ég reyni að versla sem mest í heimabyggð en svo versla ég líka á netinu, Akureyri eða erlendis þegar færi gefst á að skjótast í borgarferð. Við vinkonurnar skelltum okkur einmitt núna í október sl. til Stokkhólms í skemmtirispu en auðvita voru verslanirnar þræddar inn á milli hressingastoppa. 
  1. Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap? Ætli Home Alone sé ekki sú mynd sem ég horfi alltaf á fyrir jólin. Svo er klassísk að taka Harry Potter maraþon yfir jólin. 
  1. Hvað borðar þú á jólunum? Það er yfirleitt kalkúnn á aðfangadagskvöld svo er Sigurjón bróðir mikill veiðimaður og listakokkur þannig að villibráð er á borðum yfir hátíðirnar. Léttsteikt rjúpuhjörtu og bringur er í uppáhaldi ásamt ávaxtafylltri heiðargæs.