Jólaviðtalið – Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar

Við vorum með bæjarstjóra Fjallabyggðar í jólaviðtali í desember. Þökkum honum kærlega fyrir að hafa gefið okkur stund af hans dýrmæta tíma í desember.

Elías Pétursson hefur verið bæjarstjóri Fjallabyggðar frá árinu 2020, en hann var sveitarstjóri Langanesbyggðar frá árinu 2014 og þar áður sjálfstætt starfandi ráðgjafi við verklegar framkvæmdir m.a. hjá Mosfellsbæ og framkvæmdastjóri Jarðmótunar ehf. Elías hefur einnig verið til sjós og unnið sem verkstjóri í jarðvinnuframkvæmdum ásamt að starfa á gröfu. Hann er fæddur á Þórshöfn árið 1965 og á ættir að rekja til Skála á Langanesi. Elías á þrjá drengi sem eru allir uppkomnir og eru á aldrinum 22ja til 30 ára. Elías gefur okkur innsýn inn í sínar jólahefðir í þessu viðtali.

Fleiri jólaviðtöl við íbúa í Fjallabyggð má lesa hér á síðunni.

 

Jólaviðtal – Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar

 

Ertu mikið jólabarn?

Ekki er nú hægt að segja það í þeim skilningi að ég t.d. skreyti mikið um jólin sem ég geri ekki, að því sögðu þá eru jólin mér mjög mikilvæg sem tími til að slaka á og eiga góðar stundir með fjölskyldunni. 

Hver er uppáhaldsjólaminning þín?

Á held ég enga sérstaka uppáhaldsminningu en margar góðar. Helst er til að nefna öll jólin frá fæðingu drengjanna minna og ég fór að lifa hátíðarnar í gegn um þá. Einnig hef ég átt ákaflega góð jól, þó þau hafi verið svolítið sérstök, þegar ég var út á sjó yfir hátíðar.

Hvað er ómissandi á jólunum?

Núorðið er í raun ekkert ómissandi, nema ef vera skildi að eyða jóladeginum í algjörri ró og án þess að skipta út náttfötunum fyrir betri gallann. 

Hvað kemur þér í jólaskap?

Heimsókn í kirkjugarðinn á aðfangadag, útvarpsmessan, jólalög með Bing Crosby og að elda jólamatinn.

Hvaða jólalag er í uppáhaldi hjá þér?

Fairytale Of New York með The Pogues.

Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?

Þegar synir mínir voru börn þá fór jólatréð undantekningalaust upp á Þorláksmessu og var helst skreytt undir útsendingu frá Þorláksmessutónleikum Bubba Morthens.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Fer sjaldnast í kirkju en hef heimsótt afa minn, ömmu og bróður í kirkjugarðinn í mörg ár, sú heimsókn er, eins og ég sagði hér að framan, eitt af því sem fyrir mér markar upphaf jólahátíðarinnar.

Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?

Rólegheitin á jóladag.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Heimabyggð ef mögulegt og eftir atvikum í Reykjavík eða á netinu.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Það væri þá helst Die Hard með Bruce Willis

Hvað borðar þú á jólunum?

Alltaf var það hamborgarahryggur, en núorðið er allur gangur á þó oftast sé það einhver útfærsla af hæfilega lítið elduðu nautakjöti.