Dagný Finnsdóttir var í jólaviðtali hjá okkur núna rétt fyrir jól og svaraði nokkrum spurningum varðandi jólahefðir. Dagný býr á Siglufirði og hefur starfað í mörg ár hjá sveitarfélaginu Fjallabyggð sem bókari. Dagný leikur golf á sumrin en spilar blak með BF yfir veturinn. Hún hefur verið í ýmsum störfum fyrir Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í gegnum árin, meðal annars í stjórn félagsins og gjaldkeri barna- og unglingaráðs KF. Dagný segir í viðtalinu að hún sé svolítið jólabarn, elski aðventuna og undirbúning jólanna.
Fleiri jólaviðtöl við íbúa í Fjallabyggð má lesa hér á síðunni.
Jólaviðtal – Dagný Finnsdóttir
Ertu mikið jólabarn?
Já ég myndi segja að ég væri svolítið jólabarn, elska aðventuna og undirbúning jólanna, baka skreyta og allt þetta jólastúss.
Hver er uppáhaldsjólaminning þín?
Þorláksmessukvöldin þegar Erla amma var kokkur á Hótel Höfn, þá var alltaf farið þangað í veisluhlaðborð og grjónagraut. Amma sá alltaf til þess að við systur fengum möndlu og smá glaðning með okkur heim.
Hvað er ómissandi á jólunum?
Það er Þorláksmessuhittingurinn hjá Huldu og Óðni, sem hefur fest sinn sess í jólahefðinni hjá okkur síðastliðin ár, dásamleg kvöldstund með góðum vinum.
Hvað kemur þér í jólaskap?
Jólafatahádegisverður sem ég held fyrir fjölskylduna, ásamt því að aðstoða KF jólasveinana.
Hvaða jólalag er í uppáhaldi hjá þér?
Það eru svo mörg falleg jólalög, en ég held alltaf upp á Last Christmas með Wham og Driving home for Christmas með Chris Rea.
Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?
Jólatréið fer yfirleitt upp í kringum miðjan desember.
Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?
Já, það hefur verið fastur liður síðustu ár að fara í kirkju á aðfangadag, fara svo að minnisvarða um drukknaða sjómenn og kveikja á kerti þar.
Einnig er farið í kirkjugarðinn og kveikt á kertum hjá ástvinum sem þar hvíla.
Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?
Ég reyni að versla sem mest í heimabyggð og á Akureyri en síðustu ár hefur aukist að versla á netinu.
Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?
Ég horfi alltaf á Love actually og The holiday yfir jólahátíðina
Hvað borðar þú á jólunum?
Það er alltaf kalkúnn á aðfangadag að hætti Hjalta Gunnars eftir uppskrift frá pabba og frómasinn frá mömmu í eftirrétt.
Svo hittumst við fjölskyldan á jóladag í hangikjötsveislu hjá mömmu.