Jólaviðtalið er að þessu sinni við Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur. Bjarkey býr í Ólafsfirði og er Alþingismaður VG í Norðausturkjördæmi síðan 2013. Hún var bæjarfulltrúi í Ólafsfirði 2006–2013. Hún starfaði einnig í veitingarekstri um árabil í Ólafsfirði. Bjarkey á þrjú börn og er gift Helga Jóhannssyni. Bjarkey lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005, með áherslu á upplýsingatækni og samfélagsgreinar. Þá er hún með Diplóma í náms- og starfsráðgjöf frá HÍ 2008. Bjarkey hefur verið sýnileg á samfélagsmiðlum og í sjónvarps- og útvarpsfréttum síðustu ár. Bjarkey heldur úti skemmtilegu Bloggi, er virk á Twitter og Instagram, og er dugleg að deila með okkur myndum.
Jólaviðtal
- Hvað finnst þér best við jólin? Samveran með stórfjölskyldunni.
- Hvað kemur þér í jólaskap? Að hlusta á jólakveðjurnar á RÚV á Þorláksmessu um leið og ég legg síðustu hönd á jólaundirbúninginn.
- Hvað borðar þú á jólunum? Wellington nautasteik.
- Hvað finnst þér ómissandi að gera um jól og áramót? Að vera í náttfötunum á jóladag og lesa góða bók og svo auðvitað að horfa á Skaupið.
- Ferðu í kirkju um jólin? Stundum í miðnæturmessu á aðfangadag ef hún er í boði.
- Hvernig jólatré ertu með? Jólatré frá Skátunum.
- Ferðu á brennu um áramótin? Ekki alltaf – læt stundum duga að horfa á hana úr stofuglugganum.