Jólaviðtal – Þórarinn Hannesson

Þórainn Hannesson var í jólaviðtali hjá okkur um miðjan desember.  Þórarinn er fæddur og uppalinn vestur á Bíldudal en flutti til Siglufjarðar haustið 1993, hann er 5 barna faðir og á fjögur barnabörn. Hann er íþróttakennari að mennt og hefur starfað við kennslu og þjálfun í um 30 ár. Auk þess rak hann myndabandaleiguna Videoval á Siglufirði, ásamt konu sinni, í tæpan áratug.  Í dag starfar hann í Menntaskólanum á Tröllaskaga í Ólafsfirði og kennir þar ýmsar greinar.

Þórarinn hefur alltaf verið mikill íþróttaálfur og hefur keppt í ýmsum greinum síðastliðin 45 ár. Hann hefur t.d. leikið vel á annað hundrað leiki í meistaraflokki bæði í körfubolta og knattspyrnu, keppt á fjölda frjálsíþróttamóta og unnið þar til nokkurra Íslandsmeistaratitla í karla- og öldungaflokkum. Einnig keppti í golfi og handbolta en síðustu tvo áratugi hefur blakið verið hans helsta íþrótt og var hann kjörinn blakmaður Fjallabyggðar á síðasta ári.

Þórarinn var viðloðandi bæjarpólitíkina fyrstu 16 árin á Siglufirði, var m.a. formaður íþrótta- og æskulýðsnefndar Siglufjarðarkaupstaðar í eitt kjörtímabil og átti sæti í bæjarstjórn síðasta árið fyrir sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Hann var formaður menningarnefndar Fjallabyggðar 2006 – 2010 sem og varabæjarfulltrúi og sat í meirihlutaráði.

Þórarinn hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum bæði fyrir íþróttahreyfinguna sem og í skólamálum. Hann var t.d. trúnaðarmaður kennara á Siglufirði í um áratug, formaður Skólastjórafélags Norðurlands vestra um tveggja ára skeið, sat í stjórn Íþróttabandalags Siglufjarðar í rúman áratug og síðan í stjórn Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar þar sem hann hefur gegnt formennsku undanfarin tvö ár. Hann var og einn af stofnendum Ungmennafélagsins Glóa og hefur verið formaður þess í 23 ár.

Þórarinn hefur einnig sinnt ýmsum öðrum hugðarverkum í gegnum tíðina. Sungið og spilað með hljómsveitum, sem og einn og óstuddur. Gefið út 5 geisladiska með eigin tónlist og komið fram víða um land. Hann hefur einnig gefið út 5 ljóðabækur og stofnaði  Ljóðasetur Íslands á Siglufirði og er forstöðumaður þess.

Hann hefur einnig skráð og gefið út gamansögur frá Siglufirði, skrifað sögur hljómsveita og spurningakver, skrifað leikþætti og leikið í þeim auk þess sem hann tók þátt í tveimur uppfærslum með Leikfélagi Siglufjarðar, ritstýrt fréttabréfum og hefur skrifað fréttir í héraðsfréttablaðið Helluna í næstum aldarfjórðung. Svo má ekki gleyma útvarpsþáttum sem hann hefur verið með á Tröllaskaga undanfarin ár.

Þórarinn heldur úti heimasíðunni www.123.is/toti7 þar sem hægt er að lesa nánar um viðfangsefni hans á ýmsum sviðum.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér á síðunni.

Jólaviðtal – Þórarinn Hannesson

Hvað finnst þér best við jólin?

Samveran með fjölskyldunni, samhugurinn sem fylgir jólaandanum, allar skemmtilegu hefðirnar og þessir fjölmörgu viðburðir fyrir og um jólin þar sem fólk kemur saman.  

Hvað kemur þér í jólaskap?

Jólaljósin, jólasnjórinn, eftirvæntingin hjá börnunum og hæfilegt magn af jólalögum.

Hvað borðar þú á jólunum?

Jólasteikin hefur ávallt verið hamborgarhryggur svo fær maður alveg eðal sjávarréttarsúpu í forrétt hjá tengdó og að maður tali nú ekki um ananasfrómasinn á eftir og heimagerða ísinn. Á annan í jólum er það hangikjötið og yfirleitt kalkúnn um áramót.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Þau eru nú nokkur. Í íslensku deildinni eru það Gleði og friðarjól með Pálma Gunnars og Er líða fer að jólum með Ragga frænda Bjarnasyni. Af þeim erlendu má nefna Driving home for Christmas með Chris Rea og Silent Night, Holy Night með hinni mögnuðu Mahaliu Jackson.  

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn? 

Í seinni tíð hef ég ekki farið í kirkju um jólin en gjarnan er litið við í kirkjugarðinum.

Hvernig jólatré ertu með?

Við höfum ávallt verið með gervitré.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Nei, enga sérstaka, en þær eru margar góðar sem gaman er að horfa á í faðmi fjölskyldunnar t.d. Grinch, Christmas Vacation, Home Alone, The Holiday og Love Actually að ógleymdri hinni klassísku It´s a Wonderful Life. 

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Versla alltaf töluvert í heimabyggð og svo hér og þar eftir aðstæðum. 

Ferðu á jólatónleika ?

Hef ekki farið á neina af þessum stóru tónleikum en fer gjarnan á tónleika með tónlistarfólki sem sækir okkur heim fyrir jólin og svo að sjálfsögðu á jólatónleika tónskólans okkar.

Ferðu á brennu um áramótin?

Það var fastur liður þegar börnin voru yngri en nú látum við nægja að njóta brennunnar úr glugganum hjá tengdó, enda í stúkusæti.

Myndir úr einkasafni Þórarins.