Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir var í jólaviðtali hjá okkur nokkrum dögum fyrir jól. Hún býr á Siglufirði og hefur unnið hjá Primex síðan 2001. Hún er í dag framkvæmdastjóri fyrirtækisins og sinnir einnig markaðsmálum.  Sigríður stundar hestamennsku með fjölskyldunni en einnig eiga ný­sköp­un­ar­mál hug hennar allan og sit­ur hún m.a. í stjórn Tækniþró­un­ar­sjóðs.  Sigríður er fædd í Skagafirði og bjó þar fyrstu sex árin en fluttist síðar til Hveragerðis og bjó þar sem barn og unglingur.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér á vefnum.

Jólaviðtal – Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir

Hvað finnst þér best við jólin?

Eyða tíma í faðmi fjölskyldunnar. Börnin mín eru bæði flutt að heiman og ég hlakka mikið til að vera með þeim.  Það verður kátt á Suðurgötunni þegar tveggja ára tvíburadrengirnir sem búa í Danmörku mæta til ömmu og afa til að halda jólin.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Andrúmsloftið sem verður einhvernveginn svo ljúft þegar nær dregur jólum. Og svo er það auðvitað hin árlega skötuveisla með góðum vinum og fjölskyldu.

Hvað borðar þú á jólunum?

Það hefur verið hefð að borða purusteik og léttreyktann lambahrygg en mér skilst að nú eigi að kúvenda þessu og er ég alveg elsku sátt við það. En laufa- og soðnabrauðið hennar Öllu tengdamömmu er og verður alltaf partur af jólunum hjá okkur.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Þori varla að segja það, en það lag sem kemur mér í virkilegt jólaskap er “Meiri snjó” sungið af Guðrúnu Á. Símonar sem þau Guðmundur Jónsson gáfu út 1975. Mamma mín hlustaði á þessa plötu eins og enginn væri morgundagurinn og auðvitað hreifst maður með.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Ég fer yfirleitt í kirkju á aðfangadag og við fjölskyldan förum alltaf í kirkjugarðinn með kerti. Þar eigum við stund saman sem vekur með okkur ljúfsárar minngingar um látna ástvini.

Hvernig jólatré ertu með?

Plastjólatré sem við keyptum í Skátabúðinni í den, það er svo gamalt að það er örugglega orðið umhverfisvænt.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Love Actually og Notting Hill eru mínar uppáhalds og það sem fullkomnar áhorfið er að vera í náttfötum og kósísokkum. 

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég reyni yfir höfuð að versla sem mest í heimabyggð, kaupi lítið á netinu en en annað að mestu erlendis þar sem ég er á töluverðu flakki vinnu minnar vegna og til að heimsækja fjölskylduna í Kaupmannahöfn.

Ferðu á jólatónleika ?

Hef gert það í gegnum tíðina en fór því miður ekki þetta árið.

 

Sigríður og samstarfskonur hennar kynna vörur Primex á fagsýningu í Sviss.
Sigríður og dóttirin, Elisabet Alla. Mynd úr einkasafni.
Myndir úr einkasafni Sigríðar.