Jólaviðtal – Linda Lea Bogadóttir

Linda Lea Bogadóttir var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Linda Lea býr á Siglufirði og starfar sem markaðs- og menningarfulltrúi hjá Fjallabyggð. Linda hóf störf fyrir sveitarfélagið um mitt ár 2016 og var valin úr hópi 17 umsækjenda um starfið.  Linda Lea er viðskiptafræðingur að mennt af stjórnunarbraut frá Háskólanum á Akureyri hefur lokið MA námi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún starfaði meðal annars sem sérfræðingur hjá Landsneti í níu ár á sviði viðskiptatengsla, markaðsmála og kerfisstjórnar. Linda var í nokkur ár framkvæmdastjóri dægurlagakeppnis Kvenfélags Sauðárkróks, en þar bjó hún í nokkur ár.

Linda æfði blak með HK og var Íslandsmeistari í 4. flokki kvenna árið 1981. Hún fermdist í Kópavogskirkju árið 1982.  Linda er uppalin í Kópavogi en á ættir að rekja til Siglufjarðar. Hún hefur einnig búið í Hafnarfirði, Skagafirði, á Akureyri og í Danmörku.

Nokkrir punktar um Lindu

Linda hélt úti bloggsíðu í nokkur ár, lindalea.blog.is, og rötuðu pistlar hennar stundum á vef mbl.is. og víðar. Linda er annar þýðenda bókarinnar Brunch á 100 vegu frá árinu 2000.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

Jólaviðtalið – Linda Lea Bogadóttir

Hvað finnst þér best við jólin?

Samveran með börnunum og fjölskyldunni, friðurinn og kærleikurinn sem umvefur alla.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Desember allur og undirbúningurinn heima og svo snjórinn og jólaljósin. Kemst í svaka jólafíling þegar ég byrja að skreyta heima hjá mér.

Hvað borðar þú á jólunum?

Alltaf hamborgahrygg á aðfangadag með öllu tilheyrandi. Yfirleitt kalkún á jóladag og afganga og hangikjöt á annan í jólum.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Á svo mörg uppáhalds. En ætli It´s beginning to look a lot like Chrismas með Michael Bublé og Dansaðu vindur með Eivöru séu ekki þau sem koma mér helst í jólaskap.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Já, finnst jólin ekki koma nema ég fari í messu kl. 18:00 á aðfangadag. Já ég vitja þeirra sem hvíla í kirkjugarðinum yfir jólin. Reyni helst að fara á aðfangadag en ef aðstæður leyfa það ekki þá fer ég milli jóla og nýárs. Eftir að ég flutti til Siglufjarðar hef ég ekki farið þó svo að ég eigi langafa og langömmu þar.

Hvernig jólatré ertu með?

Síðustu jól vorum við með lifandi tré en ég er annars alltaf með gervi tré. Það var mjög erfið ákvörðun að skipta en ég prófaði það fyrir 8 árum og sé ekki eftir því í dag.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Ó já – The Holliday með Kate Winset og Cameron Diaz og allar jólateikimyndirnar með yngstu dótturinni.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

 Þetta árið að mestu í Reykjavík og á Akureyri.

 Ferðu á jólatónleika ?

Já, alltaf á aðventu. Ég sæki tónleika eins og ég get hér heima og á miða á Heima um Jólin á Akureyri núna.

Ferðu á brennu um áramótin?

Já hef reynt að fara en það er samt ekki fastur liður hjá mér.

Mynd úr einkasafni Lindu.