Kristín Anna Guðmundsdóttir var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Hún er fædd og uppalin á Siglufirði og fermdist í Siglufjarðarkirkju árið 1985. Kristín er menntuð þroskaþjálfi frá Háskóla Íslands og starfar við Menntaskólann á Tröllaskaga sem þroskaþjálfi og við kennslu útivistargreina.  Hún hefur einnig starfað sem þroskaþjálfi við Grunnskóla Fjallabyggðar. Kristín sinnti áður ýmsum störfum og rak meðal annars myndbandaleiguna Vídeoval á Siglufirði í næstum áratug með manni sínum, Þórarni Hannessyni.  Þá sat hún í stjórn Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborgar í nokkur ár þar af tvö ár sem formaður.  Kristín hefur stundað skíðaiðkun frá barnsaldri og líður hvergi betur en í Skarðinu á Siglufirði.

Í vetur, líkt og síðustu ár, tekur hún að sér byrjendakennslu á svigskíðum í Skarðinu, bæði fyrir fullorðna og börn.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

 

Jólaviðtal – Kristín Anna Guðmundsdóttir

 

Hvað finnst þér best við jólin?

Mér hefur alltaf fundist aðventan notaleg. Sem betur fer er ég að þroskast hvað varðar þrif og annað brjálæði sem áður “þurfti” að gera fyrir jólin. Skítastuðullinn hefur hækkað með árunum sem betur fer, eða sjónin versnað!

Hvað kemur þér í jólaskap?

Snjórinn, jólaljósin, góð jólalög og samveran með fjölskyldunni.

Hvað borðar þú á jólunum?

Það er eitt og annað s.s. humarsúpu, hamborgahrygg, kalkúnabringu, mömmu fromanse og heimagerðan ís, einnig er möndlugrauturinn ómissandi.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Last Christmas með George Michael, einnig er jóladiskurinn “Engin jól án þín” sem Stefán Hilmarsson gaf út fyrir nokkrum árum í miklu uppáhaldi.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Hingað til höfum við fjölskyldan ekki farið til kirkju á jólunum, en það mun breytast í ár þar sem ég er komin í kirkjukórinn. Þó á eftir að koma í ljós hversu margir úr fjölskyldunni koma með mér til kirkju. Í kirkjugarðinn fer ég alltaf um jólahátíðina.

Hvernig jólatré ertu með? Við endurnýjuðum jólatréð fyrir um tveimur árum síðan. Áður höfðum við verið með tré sem var komið til ára sinna og var gervitré sem foreldrar mínir eignuðust árið 1966. Tréð var því orðið 50 ára og plastið orðið frekar stökkt.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Christmas Vacation og fleiri.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég reyni að versla í heimabyggð og einnig annarsstaðar ef ég dett niður á eitthvað sniðugt.

Ferðu á jólatónleika ?

Stundum geri ég það, þó ekki í ár.

Ferðu á brennu um áramótin?

Alltaf hér áður fyrr var farið á brennu þegar krakkarnir voru litlir, núna er voða notalegt að horfa á brennuna úr eldhússglugganum hjá foreldrum mínum.

Myndir úr einkasafni Kristínar.