Jólaviðtal – Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir

Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Hún er forseti Bæjarstjórnar Fjallabyggðar og Oddviti Betri Fjallabyggðar sem er nýtt þverpólitískt og óháð framboð sem bauð fram í sveitarstjórnarkosningum árið 2018.  Ingibjörg Guðlaug er núna í meistaranámi í jákvæðri sálfræði. Hún starfaði sem mannauðsstjóri hjá Genís á Siglufirði frá 2015-2018.

Ingibjörg skipaði 14. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningum árið 2017.  Ingibjörg er uppalin í Vestmannaeyjum og á ættir að rekja til Sandgerðis, Eskifjarðar og Breiðdals. Hún hefur búið í Fjallabyggð ásamt manni sínum síðan 2015.  Hún bjó áður í Berlín í Þýskalandi í sex ár ásamt fjölskyldunni. Ingibjörg vann hjá tónlistarhugbúnaðarfyrirtæki í Berlín á meðan maðurinn hennar sótti framhaldsnám.

Ingibjörg Guðlaug er með B.A. í stjórnmálafræði og M.Sc. í mannauðsstjórnun.  Hún hefur víðtæka starfsreynslu og hefur í gegnum tíðina starfað m.a. sem verkefnastjóri í vefnotendaþjónustu, sem sérfræðingur í nefnd hjá ríkisstjórninni, viðburðastjórnun og sem mannauðsstjóri.  Ingibjörg stundaði nám í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum og var einn leikstjóra á uppfærslu Leikfélags Vestmannaeyja og leiklistarhóps framhaldsskólans á Rocky Horror árið 2000.

Áhugamál Ingibjargar Guðlaugar eru bókalestur, söngur og útivist, þá sérstaklega skíði.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

Jólaviðtal

 

Hvað finnst þér best við jólin?

Jólahefðirnar sem við höfum skapað saman fjölskyldan, samverustundirnar með fjölskyldu og vinum og maturinn.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Að skreyta heimilið og upplifa eftirvæntinguna hjá börnunum mínum.

Hvað borðar þú á jólunum?

Við breytum alltaf ár frá ári og reynum aldrei að vera með það sama ár eftir ár. Höfum í gegnum tíðina verið með fjölbreyttan mat; þorsk,
salt fisk, skötusel, humar, nautakjöt, hjartarkjöt, villisvín, kengúru, gæs, hreindýr og lamb.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Þú komst með jólin til mín með Björgvini Halldórs og Rut Reginalds.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Nei, hvorugt.

Hvernig jólatré ertu með?

Lifandi tré úr Skarðsdalsskógi.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Já, Elf og Home Alone eru klassískar!

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Já, í bland.

Ferðu á jólatónleika?

Ég syng sjálf í Sölkunum kvennakór á Dalvík og við vorum með tvenna tónleika 9. desember sl. í Ólafsfjarðarkirkju og í Dalvíkurkirku.  Svo ætla ég að fara á tvenna aðra tónleika.

Ferðu á brennu um áramótin?

Já, að sjálfsögðu!