Við fengum Ingu Eiríksdóttur til okkar í desember í jólaviðtal.  Inga er Akureyringur en flutti til Ólafsfjarðar með syni sína tvo fyrir um 17 árum.  Inga er gift Rúnari Kristinssyni, háseta á Sólberg ÓF-1.

Inga er í dag kennari og fjármálstjóri í Menntaskólanum á Tröllaskaga í Ólafsfirði, og hefur starfað þar frá stofnun skólans og líkar það mjög vel.  Þar kennir hún einna helst stærðfræði en þó kemur fyrir að hún kenni fög eins og fjármálalæsi, bókfærslu, forritun eða landafræði.  Hún starfaði lengi við Grunnskóla Ólafsfjarðar þar sem hún kenndi m.a. stærðfræði og dönsku.  Eins starfaði hún um tíma sem markaðs- og kynningarfulltrúi Fjallabyggðar.

Inga byrjaði á því að læra kerfisfræði í Danmörku, síðan Viðskiptafræði við HA, þá Uppeldis og kennslufræði við HA og loks Menningar- og menntastjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún er þó ekki alveg hætt því undarfarnar annir hefur hún verið að taka fög í HA í Meistaranámi á Menntavísindasviði í Upplýsingatækni í námi og kennslu.

Inga skipaði 6. sæti H-lista félagshyggjufólks í Fjallabyggð í sveitarstjórnarkosningum árið 2006.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

 

Jólaviðtal – Inga Eiríksdóttir

Hvað finnst þér best við jólin?
Samvera fjölskyldu og vina. Og af því leiðir auðvitað mikið af góðum mat og drykk.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Það er svo mismunandi. Um það bil annan hvern desember er ég ein fram að því að maðurinn minn kemur í land. Þá getur verið erfitt að komast í almennilegt jólaskap fyrr en hann kemur heim. Það er svo miklu skemmtilegra að jólastússast með einhverjum.  Jólaseríur geta t.d. oft pirrað mig mikið. En þegar allir eru komnir heim, karlinn og strákarnir þá er jólaskapið alveg komið.

Hvað borðar þú á jólunum?

Við borðum hamborgarhrygg með brúnuðum kartöflum, rjómasoðnu rósakáli, Waldorfsalati og sósu. Ég elda alltaf mjög mikið, 5 – 6 hryggi. Ég er með marga karlmenn í mat og svo vil ég eiga afgang því ég elda ekki meiri hátíðarmat fyrr en fyrir gamlárskvöld. Ég reyni að elda sem minnst milli jóla og nýárs. Við borðum afganga af þessum hryggjum og svo graflax, rækjurétt, pate, osta og ýmislegt smálegt sem ég er búin að fylla ísskápinn með.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Last Christmas með Wham! Ég veit ekki af hverju, einhver nostalgía.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Þrátt fyrir að vera frekar trúuð þá fer ég mjög sjaldan í kirkju og ekkert frekar á jólunum en aðra daga. Mér finnst samt mjög gott og róandi að fara í messu. Jafnast alveg á við góða slökun í jóga. Við förum hins vegar í kirkjugarðinn með nokkuð mörg kerti.

Hvernig jólatré ertu með?

Ég er með dautt jólatré. Þangað til ég kynntist manninum mínum þá var ég alltaf með lifandi jólatré. Hann átti hins vegar gervitré og eftir töluvert múður frá mér þá varð úr að það er notað. Stundum þarf maður að hafa vit á að gefa smá eftir. En ég kem ekki nálægt því að setja það upp.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Heima hjá okkur er það einskonar hefð að hver og einn velur sér mynd sem hann vill að sé horft á yfir hátíðarnar. Það bregst varla að ein þeirra er Die hard. Og yfirleitt eru þetta gamlar myndir sem allir eru löngu búnir að sjá en hafa gaman af að horfa á aftur. Þrátt fyrir að vera mikill „Syfy fan“ þá reyni ég yfirleitt að hafa mína mynd “stelpumynd”. Þeir hafa gott af því að horfa á The Proposal, Clueless eða Love Actually og ég er fyrir löngu búin að koma þeim öllum á „Syfy“ bragðið nema kannski Rúnari svo það er yfirleitt alltaf einhver góð Syfy mynd í bunkanum.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég versla jólagjafir alls staðar. Ég er ekki kölluð Inga Ebay fyrir ekki neitt. En í ár þá verslaði ég töluvert hjá samstarfsfólkinu mínu. Ég vinn með mikið af frjóu fólki sem er mjög skapandi.

Ferðu á jólatónleika ?

Nei. Ég hef einu sinni á ævinni farið á jólatónleika. Það var hér á upphafsárum skólans og hópur nemenda skipulagði jólatónleika til styrktar Barnaspítala Hringsins sem hluta af verkefni í Frumkvöðlafræði. Það var mjög gaman enda voru þar heimamenn á ferð. Ég get ekki sagt ég hafi áhuga á þessum nú hefðbundnu jólatónleikum sem byrjað er að auglýsa nær strax eftir verslunarmannahelgi.

Ferðu á brennu um áramótin?

Við erum yfirleitt á Akureyri hjá bróður mínum um ármótin. Þar söfnumst við saman öll fjölskyldan hans eða okkar og öll fjölskylda mágkonu minnar í eins konar Pálínuboð. Við verðum þó aldrei fleiri en þessi 16 sem er samanlagður fjöldi beggja fjölskyldna. Það kemur fyrir að við förum á brennu en nú þegar allir strákarnir eru orðnir svona stórir þá hefur það nærri lagst af. Það sama er þó varla hægt að segja um sprengingar, þær virðast aukast eftir því sem þeir verða eldri.