Jólaviðtal – Helgi Jóhannsson

Helgi Jóhannsson var hjá okkur í jólaviðtali um miðjan desember.  Helgi býr í Ólafsfirði og er þar uppalinn.  Flestir íbúar muna eftir honum úr Sparisjóði Ólafsfjarðar, en þar vann hann frá árinu 1983 og áfram hjá Arion banka þegar bankinn tók yfir sjóðinn árið 2012.  Helgi vinnur í dag í útibúinu á Siglufirði.

Helgi hefur fengist við ýmisleg hliðarverkefni síðustu áratugi ásamt konu sinni, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur.  Helgi stundaði m.a. knattspyrnu á sínum yngri árum, lék upp yngri flokkana með Leiftri í Ólafsfirði, og lék einnig 25 leiki í meistaraflokki félagsins og skoraði 2 mörk. Helgi lék mest hægra megin á miðjunni, en einnig sem hægri bakvörður.  Helgi var á hátindi ferilsins árið 1992, þá 28 ára og fastamaður í liðinu og lék 16 leiki af 18 í deildinni auk þriggja bikarleikja, en þá lék Leiftur í næstefstu deild (2. deild) og enduðu í 4. sæti og áttu markahæsta mann mótsins, Þorlák Árnason með 17 mörk. Fleiri þekktir leikmenn í þessu liði eins og Pétur Marteinsson, sem síðar varð atvinnumaður og landsliðsmaður og svo Anton Mark Duffield.

Eitt af hliðarverkefnum þeirra hjóna og vakti landsathygli var fyrirtækið Íslensk Tónbönd sem var stofnað af þeim í nóvember 1991. Fyrirtækið framleiddi íslenskar kassettur (Hljóðsnældur) og seldi meðal annars til Ríkisútvarpsins, en einnig voru fjölfaldaðar og framleiddar spólur með efni fyrir Fílapenslana, Jólasögur með Guðmundi Ólafssyni og sögurnar Bernskubrek. Nokkrum árum síðar var geisladiskurinn orðinn allsráðandi og fyrirtækið var selt. Þetta fyrirtæki var einnar sinnar tegundar á Íslandi og var í samkeppni við erlendar innfluttar kassettur.

Helgi hefur líka komið að rekstri og stofnun kaffihússins Kaffi Klara og Gistihús Jóa áður en nýir eigendur tóku við. Þá hefur hann verið í stjórn Fjallasala ses. en það félag stendur að Pálshúsi í Ólafsfirði sem hýsir m.a. náttúruminjar og ýmsar sýningar.  Helgi sat í stjórn MTR frá árinu 2010 og fram til ársins 2017 og gengdi formennsku í þrjú ár.

Helgi bauð sig fram í 3. sæti fyrir H-lista í Fjallabyggð í Sveitastjórnarkosningum 2018. Helgi er nú aðalmaður skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar. Undanfarið hefur hann svo verið að gera upp gamlan trébát, Freymund ÓF.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

Jólaviðtal – Helgi Jóhannsson

 

Hvað finnst þér best við jólin?

Það er ekkert eitt best við jólin, mér finnst aðventan og jólin frábær tími. Ég er algjört jólabarn og finnst mjög gaman að skreyta innanhúss sem utan. Ég held mjög mikið í gamlar hefðir, flestar mínar jólaseríur eru mjög gamlar og fer ég með þær sem gull. Sumar voru í glugganum hjá okkur systkyninum þegar við vorum lítil og fékk ég að eiga þær. Fann perur á netinu í fyrra sem mig var farið að vanta þannig að þær tikka áfram og það veitir mér mikla gleði því þær minna mig á bernskujólin. Svo alltaf gaman þegar öll fölskyldan er saman á þessum tíma. Einnig er hefð að stórfjölskyldan hittist á jóladag þar sem borðað er hangikjöt og heimatilbúin sviðasulta með tilheyrandi.

 Hvað kemur þér í jólaskap?

Ég er í jólaskapi allt árið en það nær hámarki í desember þegar byrjað er að spila jólalögin og maður fer að spá í skreytingar.

 Hvað borðar þú á jólunum? 

Mamma var alltaf með lambahrygg og léttreyktan hrygg og heimatilbúinn ís í eftirrétt. Það var svakalega gott og sósan eftirminnileg. En svo þegar maður flytur að heiman og fer í sambúð þá býr maður sér til nýjar hefðir og nú er það Wellington nautasteik, ekta Bernaise sósa og heimatilbúinn ís hjá okkur.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Það eru tvö gömul íslensk sem mér finnst alltaf góð. Yfir fannhvíta jörð með Pálma Gunnarssyni og Í hátíðarskapi með Jóhanni Helgasyni (þó ekki pabba) og Helgu Möller. Á svo sem ekkert uppáhalds erlent en hef alltaf taugar til Silent night sem hún Mahalia Jackson söng. Á aðfangadagskvöld kom stórfjölskyldan allltaf saman hjá ömmu Massý og afa Magga í Vesturgötunni. Þegar þessi plata var sett á fóninn og lagið spilað áttu allir krakkarnir að hafa alveg hljóð á meðan sálmurinn var sunginn. Þessu hlýddu allir sem vit höfðu og þegar Heims um ból er spilað í messunni í útvarpinu á aðfangadag þá hlusta ég hljóður enn þann daginn í dag.
En svo verð ég að plögga einu lagi í viðbót sem ég held uppá en það er eftir systkini mín Guðrúnu og Magga og heitir, Mig langar ekki í neitt annað, sungið af Ernu Hrönn.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Því miður fer ég ekki mikið í kirkju um jólin en alltaf stendur það til bóta. En við fjölskyldan förum alltaf í kirkjugarðinn með kerti til ættingja.

Hvernig jólatré ertu með?

Gervi jólatré frá Skátunum, grænt. Tek litinn fram þar sem nú geta þau verið allskonar á litinn.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Nei, ég þarf voðalega lítið til að koma mér í jólaskap, bara að opna einn kassa með seríum og þá er ég góður.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Já, ég reyni alltaf að styðja við heimabyggð, það er mín fyrsta hugsun. En stundum þarf maður að leita annað, Akureyri eða netið kemur þá næst.

 Ferðu á jólatónleika ?

Já, við hjónin erum dugleg að sækja tónleika. Fórum á Kvennakórinn Sölku í Ólafsfjarðarkirkju um daginn og svo eru tónleikar með Olgu á næsta leiti.

Ferðu á brennu um áramótin?

Já, þó ég hafi mjög gott útsýni úr stofuglugganum heima þá reyni ég að fara á brennuna. Ef allir horfa úr glugganum heima, verður að lokum engin brenna.

Mynd úr einkasafni Helga.
Mynd: Dagblaðið Dagur, 1993.
Mynd: Dagblaðið Dagur 1992.