Jólaviðtal – Hákon Leó Hilmarsson
Undanfarin fjögur ár höfum við heyrt í íbúum Fjallabyggðar og tekið nokkra þeirra í jólaviðtal og fengið þá til að svara spurningum tengdum jólahátíðinni. Hákon Leó var fyrsti viðmælandinn í ár og þökkum við honum kærlega fyrir að gefa sér tímann í viðtalið.
Hákon Leó Hilmarsson er fæddur árið 1997 og er frá Ólafsfirði. Hann gekk í Grunnskóla Fjallabyggðar, Menntaskólann á Tröllaskaga og Menntaskólann í Kópavogi. Hákon stundar knattspyrnu með Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar og vinnur sem bakari á besta bakaríi landsins, Aðalbakarí á Siglufirði. Hákon kláraði sveinsprófið í bakstri í sumar með miklum sóma.
Fleiri jólaviðtöl má lesa hér á vefnum.
Jólaviðtalið – Hákon Leó Hilmarsson
Ertu mikið jólabarn?
Já já ég hef gaman af þeim.
Skreytir þú mikið í ár?
Þetta eru fyrstu jólin sem ég bý ekki hjá foreldrum mínum og komandi af því heimili er ekki til orð yfir of mikið af skreytingum. Ég tel mig vera á byrjunarreit í skreytingabransanum í ár en stefnan er sett hærra á komandi árum.
Hver er uppáhaldsjólaminning þín?
Það mun líklegast bara vera þegar maður var lítill og þurfti ekkert að spá í öllu sem fylgir jólunum, Maður gerði bara jólagjöfina mömmu og pabba í smíðum eða textíl í grunnskólanum og svo var bara að njóta. Það er nokkuð indæl minning og ekkert vesen.
Hvað er ómissandi á jólunum?
Spila Monopoly á jóladag. Ég er ósigrandi í því. Einnig Heimsmeistaramótið í pílu.
Hvert er besta jólalagið?
Snjókorn falla með Jóni Jónssyni. Það er ekki hægt að keppa við hann, því miður fyrir hina.
Hvenær fer jólatréð upp á þínu heimili?
Alls ekki seinna en 1. desember annars er vinnan við að setja það upp ekki þess virði.
Hverjir verða í „jólakúlunni” þinni í ár?
Mamma, pabbi, bróðir og amma.
Hvaða jólahefð má aldrei rjúfa?
Jólahúsið mömmu og pabba. Þeir sem hafa ekki farið í heimsókn til þeirra á jólunum eru að missa að miklu. Ástríðan sem þau leggja í að skreyta er mögnuð.
Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða á netinu?
Það gleður mig ekkert meira en góð internet verslun.
Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?
Erfitt að kalla það jólamynd en Heimsmeistaramótið í pílu kemur mér í jólaskapið öll jól. Jólin koma í Ally pally.
Hvað borðar þú á jólunum?
Hamborgahryggurinn klikkar seint. Algjör óþarfi að breyta einhverju sem virkar.
