Jólaviðtal – Guðmundur Ingi Bjarnason

Undanfarin ár höfum við heyrt í íbúum Fjallabyggðar og tekið nokkra þeirra í jólaviðtal og fengið þá til að svara  jólaspurningum. Guðmundur Ingi var fyrsti viðmælandinn í ár og þökkum við honum kærlega fyrir að gefa sér tímann í viðtalið. Fleiri jólaviðtöl má finna hér á síðunni.

Guðmundur Ingi Bjarnason var í jólaviðtali hjá okkur núna í desember. Guðmundur hefur búið undanfarin 5 ár í Ólafsfirði en bjó áður í Reykjavík. Hann segist ekki sjá eftir að hafa flutt úr stórborginni.  Guðmundur hefur starfað fyrir Kaffi Klöru í Ólafsfirði sem er fjölskyldurekið fyrirtæki með veitingar og gistingu. Í sumar starfaði Guðmundur við góðan orðstír sem aðal tjaldvörður í Fjallabyggð, þar sem hann tók vel á móti gestum og leiðbeindi þeim hvar skemmtilegustu staðina væri að finna í Fjallabyggð. Þessa á milli hefur Guðmundur verið í Björgunarsveitinni Tindi í Ólafsfirði og svo sannarlega lagt sitt af mörkum til bæjarfélagsins.

Jólaviðtalið 

Hvað finnst þér best við jólin? 

Best við jólin er að vera innan um fólkið sem manni þykir vænt um og þeim sem minna mega sín. Það er gott og kósý að vera saman, borða góðan mat og njóta augnabliksins. 

Hvað kemur þér í jólaskap? 

Þegar maður sér fólk sýna kærleik og vera gott við hvert annað. Það þarf ekki mikið til að gleðja aðra og það er sérlega mikilvægt að hlúa að náunganum um jólin.

Hvað borðar þú á jólunum? 

Yfirleitt borða ég purusteik með öllu tilheyrandi, en ekki má gleyma heimalagaða rauðkálinu hennar Idu, ilmurinn  hefur alltaf verið boðberi fyrir jólanna.  Í eftirrétt er möndlugrautur og svo erum við oft með smákökur, og konfekt. 

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara? 

Ef ég nenni, með Helga Björnssyni er uppáhaldislagið mitt – þá er ég kominn í fjórða gírinn fyrir jólin. 

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn? 

Við höfum ekki oft farið í kirkju um jólin en við ætlum að fara í ár. 

Hvernig jólatré ertu með? 

Við höfum oftast verið með lifandi tré en núna erum við með gervijólatré. 

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap

Mér finnst “Home alone” góð mynd til að komast í jólaskapið. Það er einskonar boðskapur um að vera ekki að drífa sig og kaupa allt það dýrasta. 

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu? 

Ég versla sem mest í heimabyggð. 

Ferðu á jólatónleika ? 

Nei, ég hef aldrei farið á  jolatónleika en væri til í að upplifa það.

Mynd frá Guðmundur Ingi Bjarnason.
Mynd: GIB.
Mynd frá Guðmundur Ingi Bjarnason.
Mynd: GIB

Forsíðumyndina tók Björn Valdimarsson, og er hún birt með góðfúslegu leyfi hans.