Jólaviðtal – Erla Gunnlaugsdóttir

Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Erla er fædd og uppalin á Siglufirði og hefur starfað fyrir Grunnskóla Siglufjarðar og Grunnskóla Fjallabyggðar í 25 ár, lengst af sem kennari og síðar verkefnastjóri í sérkennslu. Erla var ráðin skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar úr hópi þriggja umsækjenda sl. sumar. Erla lauk B.Ed-prófi í grunnskólakennarafræði árið 2002 og er með framhaldsmenntun í sérkennslufræðum.

Erla skipaði 16. sæti á lista Sjálfsstæðismanna í sveitarstjórnarkosningum í Fjallabyggð árið 2006 og 5. sætið í bæjarstjórnarkosningum á Siglufirði árið 2002.  Erla hefur m.a. verið stjórnarmaður í Kvæðamannafélaginu Rímu og varamaður í stjórn Stemmu – Landssamtökum kvæðamanna. Hún var einnig eigandinn af fyrirtæki í hópferðaakstri milli Sauðárkróks og Siglufjarðar sem komið var á eftir að Íslandsflug hætti að fljúga til Siglufjarðar. Þá voru þau hjónin eigendur af veitingahúsinu Torginu í 8 ár.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

Jólaviðtalið

 Hvað finnst þér best við jólin? 

Allt er gott við jólin. Aðventan er minn uppáhalds tími. Allur jólaundirbúningur. Jólaljós, skreytingar, bakstur og sérlegt áhugamál mitt, jólaþorp sem ég leika mér við að setja upp og að fá barnabörnin í heimsókn sem spá mikið í þetta jólaþorp hennar ömmu sinnar. Að njóta tímans og undirbúningsins með fjölskyldunni.   

 Hvað kemur þér í jólaskap?

Falleg jólatónlist, jólasnjór, Biscotti og góður kaffibolli í skálanum mínum.  

 Hvað borðar þú á jólunum?

Kalkún, villigæsir, ris al a mande sem ég geri alltaf og bara allskyns góðgæti.

 Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Ég á mér uppáhalds jóladisk sem ég dreg gjarnan fram í desember,  Kenny G jóladiskur svo eru bara til svo mörg falleg jólalög.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn? 

Já, við fjölskyldan förum yfirleitt í kirkju á aðfangadag og við förum í kirkjugarðana með kerti.

Hvernig jólatré ertu með?

Hef verið með lifandi tré til margra ára.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Get ekki valið neina sérstaka úr.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég versla jólagjafirnar að mestu í heimabyggð þessi jólin en eitthvað versla ég nú á Akureyri eða Reykjavík, það sem ég fæ ekki hér heima.

 Ferðu á jólatónleika ?

Já stundum, en hef ekki farið á tónleika þessa aðventuna.  

Ferðu á brennu um áramótin?

Geri það afar sjaldan – er ekki mikið fyrir brennur og flugelda.

Mynd úr einkasafni Erlu.